Hádegisfundur þann 6. júní tileinkaður barnamenningu
Fimmtudaginn 6. júní kl. 12 stendur Leikfélag Reykjavíkur fyrir hádegisfundi í forsal Borgarleikhússins. Hádegisfundurinn verður að þessu sinni tileinkaður barnaleikhúsi í tilefni þess að nýlega hlaut Þórunn Arna Kristjánsdóttir, leikkona og leikstjóri, sérstaka viðurkenningu IBBY á Íslandi fyrir framlag sitt til barnamenningar.
Þórunn Arna leikstýrði rómuðum sýningum Leikfélagsins á Emil í Kattholti og Fíasól gefst aldrei upp, en hún skrifaði einnig leikgerð þeirrar síðarnefndu ásamt Maríönnu Clöru Lúthersdóttur. Auk þess samdi hún og leikstýrði sýningunni Ofurhetjumúsin, sem sýnd hefur verið elsta árgangi leikskólabarna í Reykjavík síðustu ár við mikla gleði.
Þær Þórunn Arna og Emelía Antonsdóttir Crivello, skólastjóri Leiklistarskóla Borgarleikhússins, munu á fundinum segja frá fjölbreyttu starfi sínu fyrir börn og með börnum innan veggja Borgarleikhússins og ræða um mikilvægi barnamenningar í starfi Leikfélags Reykjavíkur.
Léttur hádegisverður er til sölu á staðnum.