Ofurhetjumúsin sýnd fyrir 1.500 leikskólabörn
Í vikunni var Ofurhetjumúsin sýnd fjórum sinnum fyrir fullum Stóra sal af elstu leikskólabörnum Reykjavíkurborgar. Þetta er árlegur viðburður þar sem fimm ára leikskólabörnum er boðið að koma í leikhús.
Ofurhetjumúsin er hugljúf og falleg
ævintýrasýning fyrir yngstu kynslóðina. Í Ofurhetjumúsinni fáum við að heyra
alveg ótrúlega sögu um mús sem ferðast um undraheima leikhússins í leit að
hugrekki sínu. Á því ferðalagi mætir hún ýmsum hindrunum en kemst á sama tíma
að því hvað það er gott að eiga góðan félaga eins og köttinn Krúsilíus sem
mætir á svæðið og styður og hvetur mús áfram þegar mús þarf mest á að halda.
Sýningin inniheldur mörg skemmtileg leikskólalög og eru áhorfendur hvattir til
að syngja með í salnum.