Borgarleikhúsið

Samstarf Borgarleikhússins við Jafnréttisskóla Reykjavíkur

22 maí 2024

Í vetur átti Borgarleikhúsið frumkvæðið að nýju samstarfsverkefni við Jafnréttisskólann og Viku6 þar sem Borgarleikhúsið bauð unglingum úr 10. bekkjum Reykjavíkurborgar að koma með félagsmiðstöðinni sinni á söngleikinn Eitruð lítil pilla.

Leikhúsferðinni var fylgt eftir með vönduðum fræðslupakka þar sem unnið var með þemu verksins. Sýningin tekst á við málefni eins og fíknivanda, kynferðisofbeldi, brothætta glansmynd, fordóma, kynvitund og fleira. Fræðslupakkinn var unninn í sameiningu af Maríönnu Guðbergsdóttur og Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur, verkefnastjórum Jafnréttisskólans, Evu Halldóru Guðmundsdóttur verkefnastjóra Barnamenningarhátíðar og Emelíu Antonsdóttir Crivello, skóla- og verkefnastjóra Borgarleikhússins.

Alls mættu 600 unglingar frá öllum félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar á sýninguna í fylgd með starfsfólki félagsmiðstöðvanna. Í aðdraganda leikhúsferðarinnar var starfsfólki félagsmiðstöðvanna boðið í Borgarleikhúsið þar sem fræðslupakkinn var kynntur og einnig kynnti leikstjóri sýningarinnar, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, verkið fyrir þeim.

Daginn eftir sýningu hittist hver unglingahópur frá hverri félagsmiðstöð með sínu starfsfólki og fór í gegnum fræðsluna saman. Þar gafst unglingum tækifæri til að rýna í þær áskoranir sem birtust í sýningunni, leita lausna við þeim vanda sem blasti við og spegla hann yfir á veruleika unglinga á Íslandi í dag.

Fjallað var um verkefnið á MenntaStefnumóti Reykjavíkurborgar sem haldið var í Hörpu 17.maí s.l. Rætt var um hvernig leiklistin nýtist í skólakerfinu sem öflug kennsluaðferð. Í framhaldinu leiddi Jóna Guðrún, aðjunkt í leiklist á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, áhugaverðar pallborðsumræður og þar sem hún sagði m.a. ,,Við sem störfum í leiklistarkennslu vitum hversu mikið nám getur átt sér stað með því að bjóða nemendum á leiksýningar. Rannsóknir sýna að leiksýningar geta verið stórt afl í menntun barna og ungmenna í gegnum leiklist og aðferðir hennar. Leiklist og kennsluaðferðir leiklistar eru hluti af Aðalnámsskrá grunnskóla”.

Hér má sjá upptöku af dagskránni í heild sinni, en umfjöllunin byrjar á 54:38 og pallborðsumræðurnar í beinu framhaldi.

Fræðslupakkann um Eitraða litla pillu má finna hér.