Borgarleikhúsið

Þrumustuldur

25 jan. 2023

Ótalmargar sögur og margs konar hjátrú hafa verið tengd leikritinu Macbeth í gegnum aldirnar en sumar frásagnir eru óvenjulegri en aðrar.


Í einni þeirra er hið fræga leikrit Shakespeare í raun í aukahlutverki en sagan engu að síður skemmtileg.

Enska orðatiltækið „To steal somones thunder“ eða „Ræna þrumu einhvers“ er velþekkt og merkir að draga athygli frá einhverjum sem hafði til hennar unnið eða jafnvel eyðileggja fyrir einhverjum með því að stela sviðsljósinu (svo notuð sé önnur myndlíking úr leikhúsinu).

Orðatiltækið á rætur að rekja til enska leikritaskáldsins John Dennis (1658-1734) sem hafði hannað nýstárlegt þrumugerðar tæki fyrir uppsetningu á leikverki sínu Appius og Virginia árið 1709. Sýningin kolféll og var fljótlega tekin af fjölunum. Til að bjarga málum ákvað leikhúsið að setja í flýti upp hið þekkta og vinsæla verk Shakespeares, Macbeth. En í nýju sýningunni var hin ágæta þrumutækni Johns Dennis notuð og án hans leyfis. Þegar svo Dennis skellti sér á verkið heyrði hann skyndilega salinn bergmála af sínum eigin þrumum og á þá að hafa sprottið bálreiður á fætur og æpt: „They stole my thunder“ eða „þau stálu þrumunni minni!“ Og þaðan er þá orðatiltækið komið.