Borgarleikhúsið

Tyrfingur Tyrfingsson

Leikskáld

Leikskáldið Tyrfingur Tyrfingsson hefur fest sig rækilega í sessi sem fremsta íslenska leikskáld samtímans og öll leikrit hans hafa vakið umtal og athygli og notið vaxandi vinsælda. Lúna er áttunda leikrit Tyrfings og það sjötta sem frumsýnt er í Borgarleikhúsinu. 

Tyrfingur lauk námi frá sviðshöfundabraut sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands árið 2011 og stundaði að því loknu nám við Goldsmiths háskóla í London. Hann vakti strax athygli með fyrsta verki sínu, einleiknum Grande, útskriftarverkefni hans frá Listaháskólanum, sem sýnt var aftur í Þjóðleikhúskjallaranum vorið 2013. Á sama tíma var einþáttungur hans, Skúrinn á sléttunni, frumsýndur á litla sviði Borgarleikhússins sem hluti af dagskránni Núna!

Tyrfingur var í kjölfarið ráðinn leikskáld Borgarleikhússins og úr því starfi komu tvö leikrit sem frumsýnd voru í Borgarleikhúsinu. Það fyrra var Bláskjár (2014) í samstarfi við leikhópinn Óskabörn ógæfunnar og hið síðara Auglýsing ársins (2016). Næstu tvö verk Tyrfings voru líka frumsýnd í Borgarleikhúsinu: Kartöfluæturnar (2017) og Helgi Þór rofnar (2020), en sjöunda verk Tyrfings, Sjö ævintýri um skömm, var aftur á móti frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins árið 2022. 

Öll átta leikverk Tyrfings, fyrir utan Skúrinn á sléttunni, hafa hlotið tilnefningu til Grímunnar – íslensku sviðslistaverðlaunanna sem leikrit ársins og tvö þeirra hafa hreppt verðlaunin: Helgi Þór rofnar og Sjö ævintýri um skömm. Verk Tyrfings hafa verið þýdd á frönsku, þýsku, pólsku, hollensku, ensku og ítölsku.