Borgarleikhúsið


Anthony Neilson

Á fyrri hluta tíunda áratugs síðustu aldar spratt fram hópur leikskálda á Bretlandseyjum sem hristu rækilega upp í áhorfendum með róttækum og ágengum leikritum. Verk þessara höfunda vöktu mörg hver athygli og jafnvel óhug fyrir mjög opinskáa umfjöllun um kynlíf og sviðsetningu ofbeldis, sem gerði það að verkum að þau fengu á sig merkimiða nýrrar stefnu: „In-Yer-Face“ leikhús. Fremst í flokki þessara höfunda voru meðal annarra nokkrir sem ratað hafa a svið hérlendir: Sarah Kane (Rústað, 4:48 geðtruflun, Ást Fedru), Mark Ravenhill (Shopping & Fucking), Martin McDonagh (Fegurðardrottningin frá Línakri, Halti Billi, Koddamaðurinn, Vestrið eina) og Anthony Neilson.

Anthony Neilson hefur þó aldrei alveg verið sáttur við þennan merkimiða: „Ég var einu sinni hluti af hreyfingu,“ skrifaði hann í blaðagrein árið 2007. „Eins og segja má um flestar hreyfingar, þá tók enginn þeirra sem var hluti af henni eftir því að neitt væri á hreyfingu. Ég hefði líklega ennþá verið ómeðvitaður um það hefði ekki blaðamaður sagt mér frá því. Hún var kölluð „In-Yer-Face“, sem frægara samferðafólki mínu þótti móðgandi, en ég var bara glaður yfir því að einhver hafði tekið eftir að ég væri á lífi. Eftir því sem ég kemst næst snerist In-Yer-Face að mestu leyti um að vera viðbjóðslegur og skrifa um skít og endaþarmsmök. Ég hélt ég væri að skrifa ástasögur.“

Því verður þó ekki neitað að ofbeldi var fyrirferðarmikið í fyrstu verkum Neilson, sem fæddist í Skotlandi 1967. Á rúmlega þremur áratugum hefur Neilson sent frá sér yfir 25 leikrit, auk útvarpsleikrita og handrita fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Hann vakti fyrst verulega athygli árið 1991 með verkinu Normal, sem byggt var á raunverulegu máli fjöldamorðingjans Peter Kürten, sem tekinn var af lífi fyrir glæpi sína í Düsseldorf 1931. Óhugnanlegt ofbeldi var líka áberandi í næsta verki hans, Penetrator (1993) – sem Vér morðingjar setti upp í Klink og bank 2005 í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur. Ári síðar setti leikhópurinn Sokkabandið í samstarfi við Vírus upp annað ágengt verk Neilsons, Ritskoðarann (The Censor), sem hann skrifaði 1997, en þar eru í forgrunni starfsmaður á ritskoðunarskrifstofu hins opinbera, sem er kominn á endastöð bæði í vinnu og einkalífi, og kvikmyndagerðarkona sem vill fá banni á klámfengri kvikmynd sinni aflétt.

Það kvað hins vegar við nokkuð annan tón í öðrum verkum Neilsons sem rötuðu hingað á svipuðum tíma og Penetrator og Ritskoðarinn. Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi Ófagra veröld (The Wonderful World of Dissocia) á stóra sviði Borgarleikhússins í lok árs 2006, en þar lék Ilmur Kristjánsdóttir konu sem þjást af hugrofi. Fyrri hluti verksins á sér stað í draumkenndum og litríkum hugarheimi aðalpersónunnar Lísu, þar sem allt getur gerst, en sá síðari samanstendur af röð stuttra atriða sem eiga sér stað á litlausri og yfirmáta raunsæislegri sjúkrastofu, þar sem við fylgjumst með hægfara skrefum Lísu í átt til bata. Haustið 2007 var farsinn Lík í óskilum (The Lying Kind) sýndur á litla sviði Borgarleikhússins, sem sýndi enn aðra – og gamansamari – hlið á leikskáldinu Anthony Neilson. Á aðventunni 2012 sýndi leikhópurinn Óskabörn ógæfunnar síðan annað gamanleikrit, jólaleikritið Nóttin var sú ágæt ein (The Night Before Christmas), þar sem tveir skrautlegir karakterar hafa hendur í hári álfs, sem brýst inn í vörulagerinn þar sem þeir vinna.

Í Teprunum (The Prudes) er Anthony Neilson aftur á gamansömum nótum, þó alltaf leynist einhver alvarlegri hljómur undir gríninu. Par sem ekki hefur stundað kynlíf í fjórtán mánuði og fjóra daga er komið í leikhúsið til að gera það. Aðstæðurnar bjóða óneitanlega upp á margvísleg kómísk augnablik, sem svo sannarlega vantar ekki í verkið, en um leið forðast parið að nálgast hið raunverulega vandamál líkt og kettir í kringum heitan graut. Um leið og þau þrá snertingu, tengingu og nánd, virðast þeim fyrirmunað á ná sambandi sem fyrst og fremst byggir á því að sýna hvoru öðru skilning.

„Eitt af því sem ergir mig gríðarlega í fari mannskepnunnar, sem bæði hryggir mig og reitir mig til reiði,“ segir Neilson, „er hæfileikinn til að vera ósveigjanleg, og um leið vangeta hennar til að setja sig í spor annarra.“ Þó svo að verk Anthony Neilson séu jafn fjölbreytt og ólík og raun ber vitni, er þarna á vissan hátt að finna leiðarstef sem einkennir höfundarverk hans. Eins óþægilegt að það kann að vera að láta ýta við sér, má segja að markmið hans sé að þvinga áhorfendur til að setja sig í spor annarra, sem getur jafnvel verið erfitt þegar um nánustu ástvini er að ræða.