Borgarleikhúsið


Engihjallinn er eins og Brooklyn

Að horfa á útlínur háhýsanna í Hamraborg er eins að horfa á Manhattan frá sjó. Þetta hefur fólk í Kópavogi og víðar margoft bent á. Þetta er mikilfengleg, ægifögur og smá yfirþyrmandi sjón. En það þarf að gefa þessu smá séns til að sjá það.

Árið 2014 sagði þáverandi formaður húsfélaganna í Engihjalla frá því í viðtali við Kópavogsblaðið að Engihjallinn væri eins og Brooklyn. Þar væri stutt í lágvöru- og byggingavöruverslanir, nóg af veitingastöðum og bara allt í göngufæri! Íbúi í Hamraborg sagði svo við DV árið 1992 að bílageymslurnar þar væru eins og Harlem. Hann var þá hugsanlega bara að tala um veggjakrotið og smá niðurníðslu sem hann taldi sig sjá þar. En samt, Harlem er æðislegur staður svo hann var í rauninni að segja mjög fallegan hlut um þann dásamlega stað sem bílakjallarinn þarna er.

En þetta sýnir okkur að fólk í Kópavogi, þar sem Tyrfingur Tyrfingsson ólst upp, kann að meta fegurðina í því sem er kannski ekki mjög augljóslega fallegt eða skiljanlegt. Með rétta hugarfarinu er alveg hægt að upplifa og sjá Kópavog sem New York.

Það er mjög algengt að persónur í verkum Tyrfings séu eins og þær séu í labbitúr um Smiðjuhverfið. Þar er mjög erfitt að vita hvað sé besta leiðin til að fara. Leiðirnar liggja aldrei alveg í augum uppi og reglulega torvelt að sjá hvað sé einfaldast og sniðugast að gera. En fólk verður samt alltaf að halda áfram. Þó það sé mjög freistandi að gefast bara upp. Gefa skít í þetta allt saman, fara á barinn eða stinga aftur af heim eða til útlanda.

En það er hægt að sætta sig að einhverju leyti við þetta. Sumt er og verður bara frekar glatað og óútskýranlegt en það getur samt verið mikil dýrð í allri ringulreiðinni. Það getur verið best að hafa bara húmor fyrir þessu. Reyna að hlæja að því hvað þetta er fáránlegt. Þó þetta sé kannski skítkalt, sársaukafullt og virðist jafnvel stundum hálf tilgangslaust. Þó þú fáir aldrei svarið eða það sem þú ert að leita að þarna í Smiðjuhverfinu og endar bara út á Nýbýlavegi eða í Mjódd.

Það er dýrðlegt að setjast niður á Catalinu eftir langan dag. Slagorð barsins er „Best geymda leyndarmál Kópavogs“ sem segir svo margt um hversu ónauðsynlegt íbúum finnst að fela leyndarmál af nokkurri alvöru. Fá sér kaffibolla þar eða nokkra kalda og fara svo út og reyna að finna sólbaðsstofuna sem er þarna einhvers staðar.

Það er hægt að kaupa sér blóm í leiðinni. Fá sér kannski eitt tattú. Eins og af sæta kópnum í lógói bæjarins eða kannski beinagrind því einu sinni hét svæðið sem Hamraborg er á: Skeleton Hill.
En það er ekkert víst að þú finnir strax hvar sólbaðsstofan er. En ekki velta þér upp úr því. Njóttu bara ferðalagsins og þess að vera komin í bæ sem er svona ógleymanlegur, skemmtilegur og ekkert endilega svo einfaldur. Þannig bær er Kópavogur og þannig eru verk Tyrfings Tyrfingssonar.