Borgarleikhúsið


„Kartöflur, kartöflur, kartöflur!“

Leikararnir Vala Kristín Eiríksdóttir og Jörundur Ragnarsson fara með hlutverk Evu og Andra í Teprunum. Þau komu í viðtal og ræddu áskoranir við að leika í verkum Anthony Neilson – og leika á móti hvort öðru en þau hafa heilmikla reynslu af því!

Nú er þetta í þriðja sinn sem þú Jörundur leikur í verki eftir Anthony Neilson, getur þú sagt okkur aðeins frá hinum sýningunum?

JR: Já, mér þykir ótrúlega vænt um þennan höfund því ég byrjaði í raun ferilinn með honum í leikriti sem heitir Penetrator. Við settum það upp í leiklistarskólanum, ég, Vignir Rafn og Stefán Hallur og Kristín Eysteins leikstýrði okkur. Við sýndum þetta í Klink og bank hérna fyrir ofan Hlemm, þetta var í mjög hráu rými og svo héldum við sýningum áfram í húsi sem nú er Sjóminjasafnið, þar í kjallara áður en öllu var breytt. Svo var ég í farsa eftir hann sem heitir Lík í óskilum sem var líka fyrsta sýningin mín í atvinnuleikhúsi.

Var það hér í Borgarleikhúsinu?

JR: Það var hér já, á Litla sviðinu. Steinunn Knútsdóttir leikstýrði því. Ég og Laddi vorum tvær löggur að reyna að leysa einhverja ráðgátu, Helga Braga, Eggert Þorleifs og Þór Tulinius voru í þessu. Þetta var bara mjög skemmtilegt, þetta floppaði reyndar algjörlega og það voru mjög fáir sem sáu þetta … samt gaman hjá okkur!

Er Anthony Neilson aðallega í gríninu?

JR: Penetrator er alls ekki grín og ég veit ekki hvort það sé hægt að flokka það sem við erum að gera núna sem grín. En hann er að leika sér að einhverri blöndu af svörtum húmor, drama og erfiðum hlutum, eins og þessi farsi [Lík í óskilum] byrjaði á því að það voru hjón sem voru að missa barnið sitt. Þetta er ekki beinlínis fyndinn byrjun, maður ímyndar sér ekki að svona byrji farsi. Maður lendir í því á sýningunum hans að stoppa sig af og spyrja sig: „má ég hlæja að þessu?“

Þetta er önnur sýningin eftir þennan höfund sem þú ert í Vala

VKE: Já ég var í verki eftir hann sem heitir Saumur sem var útskriftarverkefni á sviðshöfundabraut. Við sýndum það fyrst í skólanum, svo í Tjarnarbíó og svo komum við með það hingað og sýndum sex sýningar. Það var ferlega gaman. Í því verki leið mér svolítið eins og með þetta verk, samtölin renna svo snilldarlega, þetta verk er mjög létt í samanburði við Saum en þar var alveg hlegið því hann er svo „witty“ og klár.

JR: Nákvæmlega hann er svo „witty“, það lýsir honum svo vel.

VKE: Já og hann skilur fólk svo vel, hann nær að búa til aðstæður sem margir kannast við og þá hlær fólk því það hefur verið í þessum sporum.

Þið eruð að leika par í fjórða sinn núna á stuttum tíma er það ekki?

Bæði: Já!

JR: Í Sex í sveit þá var Vala viðhaldið mitt og svo kokkurinn minn (hlæja bæði)

VKE: Svo vorum við par í Fyrrverandi. Í millitíðinni lékum við líka í Þéttingu hryggðar en þar vorum við ekki par.

JR: Og Prinsessuleikarnir.

VKE: Já við vorum par í Prinsessuleikunum.

JR: Já eða sko fólk í tilhugalífinu, einhvers konar tilhugalífi.

VKE: Það er fyndið, við erum svona leikhúspar þessi misserin.

JR: Það er gaman.

Oft eru einhvers konar vandræði, ekki satt?

VKE: Á milli okkar?

Nei ekki á milli ykkar persónulega heldur persónanna sem þið leikið.

VKE: Jaaaaá

JR: Er það ekki alltaf þannig? Sjaldan sem maður sér pör í leikhúsi án þess að þau séu í einhvers konar vandræðum. Það voru nú vandræði í Fyrrverandi, sambandsörðugleikar.

VKE: Það þurfa alltaf að vera einhver átök. Í Prinsessuleikunum voru vandræðin kannski frekar hugmyndafræðileg.

JR: Það eru meiri líkindi með parinu í Fyrrverandi og parinu í Teprunum en samt eru þetta gjörólíkir karakterar, þau eru að kljást við önnur vandamál.

Það er rosa gaman að fá tækifæri þegar maður kynnist einhverjum svona vel, eins og bekkjarfélögum manns í Leiklistarskólanum. Með hverju ferli þá kynnumst við betur, þekkjum hvort annað betur og þá verður sambandið bara skemmtilegra og dýpra

VKE: Maður á þá kannski „run“ með einhverjum sem er lengra en skólinn var. Það er bara mikil gjöf. Kynnast einhverjum það náið sem leikara og vera bara: „Nú veit ég að hann er að fara að hlæja því þetta gerðist“ Eða: „Nú ætla ég að láta hann hlæja“

JR: Jafnvel „nú ætla ég að henda þessu upp í loft af því að ég veit …“

Bæði: „að hún getur gripið þennan bolta“

Það mætti segja að öll pörin sem þið hafið leikið séu frekar kómísk, eruð þið sammála því?

Bæði: Já!

JR: Við erum nú oftast sett í grínið. Í öllum þessum verkum er þó einhver dekkri undirtónn, þó það sé fyndið.

Hverjir eru helstu kostir þessa verks sem þið eruð að fara að frumsýna?

JR: Það er rosalega stutt (hlær).

VKE: Mér finnst það ógeðslega fyndið, en það fær mann líka til að hugsa og jafnvel tala saman eftir það af því að ég held að allir geti tengt við svo margt þarna. Það er það sem mér finnst. Besta við þetta verk: Fyndið, fær mann til að hugsa, fær mann mögulega til að tala af því að maður tengir.

JR: Jájájá, það er svo auðvelt að tengja við það.

VKE: Mér finnst alltaf gaman þegar það er verið að tala um spesifísk, þröng málefni. Þetta er það sem við erum að reyna að gera og þetta er það sem við erum að fjalla um. Mér finnst oft erfitt og líður bara vitlausri í leikhúsi þegar það er verið að reyna að gleypa allan heiminn. Þegar það er eitthvað mjög afmarkað og mannlegt þá er ég þar sko.

Það er ekki verið að reyna að leysa vandamál heimsins

VKE: Nei, einmitt.

JR: Það er ekki verið að deila á neysluhegðun eða …

VKE: Það er bara svo margt sem ég veit ekki um þennan heim og stundum missi ég af þegar það er verið að reyna að segja mér eitthvað of stórt, heiminn í stóra samhenginu, þá er ég oft bara „fjúff ég veit ekkert hvað er í gangi.“

JR: En þetta verður svona eins og „gateway“, vá hvað ég sletti mikið í þessu viðtali. Þó að þetta sé eitthvað spesifískt þá er það „gateway“ inn í stóra samhengið.

VKE: Já einmitt, ég heyrði svo geggjaða pælingu sem ég elska frá Brené Brown, hún segir því meira spesifískt sem umræðuefnið er því meira universal verður það. Þegar farið er beint inn í umræðuefnið eins og með kynlífið í þessu tilviki, þau ætla að reyna að gera þetta og þegar þú segir svona: „Ég þoli ekki þessa skó“ þegar það er eitthvað svona ótrúlega nákvæmt þá tengir áhorfandi við sína skó, eða það sem pirrar hann í sínu eigin lífi svona eins og þegar hinn aðilinn smjattar eða …

JR: þegar hann andar með nefinu.

VKE: Já, hann andar svo hátt og allt þetta.

Er eitthvað sem ykkur finnst erfitt eða óþægilegt við þetta verk?

VKE: Nei, ekki svona alvarlega.

JR: Mér finnst endirinn erfiðastur, án þess að spoila þá eru það mestu átökin, orkufrekasta senan. En það sem er kannski erfiðast er að leita að rétta tóninum sem hentar verkinu, við erum að leika okkur með kómík en við erum líka að leika okkur með alvarleg mál. Einhvern veginn þurfum við að finna rétta línu í leikstílnum sem að skilar sér í að þetta má vera kómískt en við hugsum líka um það alvarlega. Þetta má ekki fara alla leið öðru hvoru megin, við getum ekki farið alla leið í gríninu en ekki heldur alla leið í dramanu.

VKE: Við erum alltaf bara í augnablikinu. Þetta eru mikil samskipti við áhorfendur, eða lestur á áhorfendur og hlustun. Þetta er bara á milli setninga „bíddu þarna fór ég aðeins of langt í gríninu nú þarf ég aðeins að jarðtengja svo að þau missi ekki af.“

Svo verða sýningarnar allar mjög ólíkar eftir áhorfendum í salnum.

JR: Já, því við erum í sambandi við salinn, án þess þó að það séu gerðar einhverjar kröfur á áhorfendur þá erum við í stöðugu sambandi við þá.

VKE: En svo finnst mér líka mjög erfitt, eins og ég hef komist að á undanförnum rennslum, að það er alltaf að minnsta kosti tvisvar á rennsli þar sem ég er ekki viss um að ég nái að halda andliti af því að mér finnst eitthvað svo fyndið.

JR: Það eru alveg nokkur móment þar sem það hefur verið mikil áskorun.

VKE: Það er alveg nokkrum sinnum þar sem ég þarf bara að vera vond leikkona og ekki horfa í augun á Jörundi til að halda andliti. Það eru svo ekki alltaf sömu atriðin sem ég spring yfir. Hann skiptir kannski bara pínulítið um tón eða eitthvað augnaráð sem hann gefur mér og það er nýtt en ég var búin að búa mig undir annað. Ég get kannski haldið andliti en svo kemur einhver nýr litur og mér finnst það alltaf svo fyndið og svo stórkostlegt að ég er alltaf bara við það að hlæja.

JR: Þá horfir hún bara á ennið á mér.

VKE: Á milli augnanna og hugsa bara um kartöflur, ég þurfti að gera það í gær, kartöflur, kartöflur, kartöflur. Bara reyna að hugsa um eitthvað annað, einhvern dauðan hlut.

Hvað gerist ef þú springur?

VKE: Það er bara ótrúlega gaman fyrir áhorfendur, en þá finnst mér ég hafa svikið þau um söguna. Þá þarf maður smá upptakt, en áhorfandinn hugsar líklega „Ég var á sýningunni þegar leikarinn klikkaði“.

JR: Maður reynir hvað maður getur til að halda í sér því þó að það séu skemmtileg móment þá getur maður ekki bara leyft sér það.

VKE: En þau verða magical þegar þú hreinlega getur ekki haldið í þér, bara líffræðilega ræður ekki við þig, það er svo gaman.

Munið þið eftir einhverju svona sérsöku mómenti?

JR: Ég sprakk á hverri einustu sýningu á …

Bæði: Sex í sveit!

JR: Þá var ég að leika svo mikið á móti Sigga Þór og (flissar) hann gat bara potað í mig bara með augnaráðinu og einhverri einni hreyfingu og ég var bara farinn. Við lentum líka í þessu í Fyrrverandi.

VKE: Já ég man í Fyrrverandi þá var ég svona að falla saman við einhvern stiga og átti síðan að öskurgráta næstu setningar og Jöri kemur til mín og segir „æ hvað er að?“ og rétt áður en ég næ að svara þá segir hann „notaðu orðin þín“ og mér fannst það svo fyndið en sem betur fer þá lá ég á grúfu, lá of lengi og titraði .

(Þau hlæja bæði)

VKE: Jæja, nú þarf ég að fara í hár!