Borgarleikhúsið


„Ég segi alltaf „Þetta má ekki vera í viðtalinu“ Þetta eru bara ósjálfráð viðbrögð.“

Maríanna Clara Lúthersdóttir og Halla Björg Randversdóttir mæltu sér mót við Maríu Reyndal og Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur, leikstjóra og aðalleikkonu Með Guð í vasanum, á björtum mánudagsmorgni til að ræða verkið og alla þá gleði og sorg sem á bak við það liggur.

MCL: Þið María hafið unnið saman áður, ekki satt?

KMÞ: jú, hvort við höfum! Við höfum skrifað saman fimm gamanseríur af Stelpunum og svo hefur hún leikstýrt mér í Línu Langsokki

MR: og Ástríði!

KMÞ: Já, auðvitað – við skrifuðum Ástríði sem var líka gamansería. Svo hefur hún leikstýrt mér í Þórbergi Þórðarsyni og já, fleiru …

MCL: en þetta er aðeins öðruvísi – þótt Með Guð í vasanum sé á köflum leiftrandi fyndið þá er þyngri tónn í þessu heldur en í Stelpunum alla vega!

KMÞ: (hlær) Það er örlítið þyngri tónn í þessu en í Stelpunum! Þetta er áskorun en þetta er alveg geysilega vel skrifað hjá henni Maju og það sem mér finnst svo fallegt við þetta verk er hvað það er satt, það er svo mikil dýpt í því og mikil einlægni og auðvelt að spegla sig í því.

MCL: María, þetta verk er tengt Er ég mamma mín? þótt það sé um margt ólíkt líka – en er þetta þín saga?

MR: Já og nei. Auðvitað er ég í þessum aðstæðum – að vera hér með aldraða móður mína og vera að fara með hana inn á hjúkrunarheimili og hún er með elliglöp og minnistap og ég tek frá því og nota það – en svo aftur á móti þá er þessi persóna í verkinu ekkert endilega mamma mín og ég er ekki endilega þessi dóttir. Þannig að þetta er kannski bara eins og allir höfundar eru að gera, meira eða minna - að nýta það sem þeir þekkja og spinna svo við.

MCL: Þannig hefur verkið líka víðari skírskotun – það er meira en „bara“ persónuleg frásögn.

MR: einmitt – og þetta er náttúrulega bara samfélagslegt mál. Ég get auðvitað ekki svarið fyrir hvernig þetta er – en þegar maður ætlar að kaupa sér Bronco þá sér maður bara Bronco alls staðar á götum bæjarins og nú eru bara allir sem ég þekki að díla við þetta mál – aldraða foreldra! Og ég er auðvitað á þeim aldri.

Þær skellihlæja.

Hluti vandamálsins er að það er svo langt á milli þess hvernig málin standa í raun og veru og hvernig manneskjan upplifir aðstæðurnar og það er eitthvað sem mér finnst áhugavert að skoða út frá persónunni sjálfri sem er stödd í aðstæðunum. Að vera að missa hluti, vera að missa tökin á einhverju og missa ákvörðunarrétt um eigið líf. Alla tíð hefur þú stýrt og stjórnað og síðan er það bara tekið frá þér á síðustu árunum.

MCL: og það hefur kannski meira verið fjallað um slíkan missi út frá öðrum sjúkdómum, sbr. geðrænum vandamálum. Sú hlið hefur meira verið skoðað í listum og skáldskap en þetta er sambærilegt að því leiti að þú missir að einhveru leiti tökin á eigin lífi – sem hlýtur að vera eitt það sársaukafyllsta sem maður gengur í gegnum.

KMÞ: Akkúrat þegar fólk ætti að vera að uppskera – komið að þessum góðu dögum þegar þú getur farið að hægja á og njóta – að fólk skuli þurfa að lenda í þessu er bara agalegt.

MR: Þetta er náttúrulega svolítið skylt geðveiki þegar maður fer að hugsa út í þetta. Ég hef nú ekki talað við lækna með það í huga en hugurinn fer að virka öðruvísi og þú ert hætt að geta treyst þinni skynjun. Það er tenging þarna á milli. Og þessi sjúkdómur, það eru náttúrulega margs konar birtingarmyndir af honum; heilabilun og demensía er annað en alzheimer og við erum ekkert endilega að greina það eitthvað sérstaklega í þessu verki heldur er Ásta bara að missa tökin og það er það sem við erum að skoða – að vera að missa tökin og baráttu mannsandans við að halda í sig, halda í minningarnar, persónuna – hver maður er! Og reisnina! Það er svo skiljanlegt. Og svo er svo erfitt fyrir aðstandendurna og alla í kring að eiga við manneskju sem upplifir sig á allt annan hátt en raunveruleikinn er. Og hún vill ekki sjá hvernig hlutirnar eru.

KMÞ: Það minnir mig á – þetta þarf nú kannski ekkert að vera í viðtalinu – en maður heyrir svo oft sagt – og það fer alltaf jafn mikið fyrir brjóstið á mér: „Hún er náttúrulega alltaf að blöffa, reyna að blöffa.“ Maður heyrir svona niðrandi orðalag – en maður skilur svo vel að fólk geri þetta – það er líka reisnin – mann langar að halda í eitthvað líf! Og það myndu allir gera það!

MR: Maður finnur oft fyrir þessari umræðu – aðstandendur og aðrir að tala um hvað viðkomandi sé í miklu „rugli“ – að sjá ekki hlutina eins og þeir eru. Og það er að sumu leyti dálítið vanþroskað – hvernig maður kemur fram við manneskjuna sem er að missa allt. Það er munurinn – m.a. – á þessu verki og Er ég mamma mín? Að þetta verk er skrifað út frá manneskjunni í aðstæðunum – hitt var miklu frekar um dótturina. Og það er áhugavert að sjá þetta út frá manneskjunni sem er að missa hlutina. Og svo sjáum við auðvitað líka aðstandendurna en sjónarhornið er hennar. Hún sér hlutina allt öðruvísi og það er það sem býr til togstreituna í verkinu – spennuna – þetta mismunandi sjónarhorn á aðstæður.

MR: En það er líka áhugavert fyrir samfélagið að skoða þetta því við verðum alltaf fleiri og fleiri sem verðum öldruð – með elliglöp og minnistapi og það eru ákveðnir fordómar fyrir því og skömm og það vill enginn fara þangað – en við erum flest að fara þangað. En það er talað niðrandi um þetta og það er eins og það sé keppni í að halda öllu. Það er svo leiðinlegt þegar verið er að segja um mömmu: „Hún er orðin svo léleg – rosalega er hún orðin léleg hún mamma þín.“ Og þær tala um þetta saman í verkinu, mamman og gömlu vinkonur hennar –tala um alla hina sem eru komnir á hjúkrunarheimili. „Hún er nú bara lögst inn!“ Eins og það sé allt búið hjá henni.

MCL: En þetta er þá líka einhver barátta fyrir mannlegri reisn – standardinn lækkar.

MR: Já, þetta er svona: „Ég þarf þetta ekki. Ég er ekki komin þangað.“ Og það er tilhneiging til þess í samfélaginu af því að við afskrifum fólk sem er komið á einhvern ákveðinn stað! Og það vill enginn láta afskrifa sig. Þannig að þetta er mjög skiljanleg barátta.

KMÞ: Svo er þetta náttúrulega óþægilegur spegill – maður finnur það alveg sem aðstandandi. Ég fann að það voru bara svo margar vinkonur mömmu sem hættu alveg að koma – þetta bara er of óþægilegt.

HBR: En svo er líka sorgin fyrir aðstandendur – sem fylgir því að missa í raun manneskjuna sem þau þekktu.

KMÞ: Það er góður punktur – það er nefnilega svo áhugavert ferli – þetta sorgarferli. Maður finnur það svo mikið eftirá þegar manneskjan er farin. Auðvitað er það viss léttir því það er jú allt á niðurleið allan tímann en þá þarf maður líka að reyna að finna gleðina. Það er fyrst mikið frústrasjón þegar manneskjan, eins og Maja segir, er einhvern veginn að hverfa. Það er frústrasjón fyrir manneskjuna og fyrir aðstandendurna. En svo er eitthvað svona æðruleysi sem fylgir þessu – þegar maður fer að átta sig á því hvernig landið liggur. Við fórum mikið með vísur og ég mikið að spila á gítarinn og syngja og þá er hún í núinu. Svo líða tuttugu mínútur og hún er búin að gleyma að þetta átti sér stað og þar eru vonbrigði. En þá skiptir máli að læra bara inn á það að núið er það sem skiptir máli og henni líður vel meðan á þessu stendur og er það þá ekki bara gott inn í svefninn?

MR: En það er þetta – hún er smátt og smátt að hverfa og því fylgir gríðarleg sorg yfir því að hún er ekki það sem hún var. Fólk sér hana ekki eins og hún var – og maður er alltaf að reyna að koma því að – tala um hvað hún var áður. Það er líka eitthvað persónulegt egó – maður er að reyna að halda í persónu hennar – þetta er barátta dótturinnar að halda í það sem var en fara ekki inn í breytingarnar. Það er alltaf viðnám gagnvart núinu – núið er svo sárt – því það er alltaf minni tenging í því en var í gær. Og þá kemur maður aftur að því – hvað er eftir þegar minningarnar eru farnar? Er persónan þarna? Eða er hún farin og hvað er þá eftir? Er maður bara minningar sínar – eða ekki?

MCL: Þetta er náttúrulega bara tilvistarlegt verk!

MR: Það eru mörg lög í verkinu– svo tekur fólk bara því sem það upplifir. Svo er bara áhugavert hvað maður er alltaf að reyna að halda í raunveruleikan sem aðstandandi. Meðan hitt er kannski bara allt í lagi – að leyfa manneskjunni að fara inn í sinn heim. Í gær var ég alltaf að minna mömmu á að hún hefði ekki komið á þetta hjúkrunarheimili áður – þetta væri fyrsti dagurinn. Svo hugsaði ég – af hverju er ég alltaf að reyna að benda henni á það? Af hverju má hún ekki bara halda að hún hafi verið hérna oft áður?

HBR: Þetta er einhver rökhugsun sem maður er fastur í.

KMÞ: Það er svo mikill léttir fyrir mann, og fyrir alla, þegar maður finnur gleðina.

MR: Mig langaði ekki að gera verk bara um hvað þetta væri hryllilegt. Af því að við vitum það alveg – það er alveg með – en það er líka spurning um hvernig við getum umbreytt því í eitthvað annað. Er hægt að sjá eitthvað fallegt og skemmtilegt í þessu? Og er það þá ekki einhvers konar viðhorf – hversu hræðilegt það er? Getum við reynt að finna eitthvað sjónarhorn á það.

HBR: Það er líka svo magnað að þetta er sjónarhornið hennar – það sjáum við ekki oft.

MR: Það er einmitt það sem er spennandi – fyrir mig sem höfund – að kanna í hvaða heimi hún er. Þegar draumar og fortíð blandast saman við þessar minningar.

HBR: Nefndir þú ekki líka einhvern tímann að það væri eins og mamma þín væri orðin næmari?

MR: jú, hún finnur meira og meira fyrir foreldrum sínum. Hún sagði við mig í gær: „Ég hlýt að fara að deyja því þau eru svo rosalega nálægt mér!“ Og við tölum um dauðann mjög oft – það er ekki eitthvað hræðilegt tabú. Og ég veit ekki hvort það er af því að hún er að missa önnur skynfæri og þá situr þetta eftir – næmleikinn – eða hvort það hafi í raun opnast betur – eins og þegar maður sér illa þá heyrir maður betur.

MCL: Ein spurning að lokum: Nú er Katla að leika konu sem þrjátíu eða fjörutíu árum eldri en hún er. Hvernig kom það til?

MR: Þessi hugmynd kemur upp fyrir svolitlu síðan þegar ég er nýbyrjuð að skrifa senur og ástæðan er þessi: Hvernig getum við verið sem næst hennar upplifun – hvernig náum við hennar sjónarhorni. Ég finn þetta svo oft á mömmu minni og svo bara sjálfri mér líka – maður upplifir sig svo ungan og frískan „Á besta aldri“ og það er alveg áhugavert að það er mjög margt sem virkar hjá mömmu en hún man ekkert hvað hún er gömul. Hún hefur ekki munað það mjög lengi. Og það er alveg spurning – þegar maður man ekki hvað maður er gamall – hvernig hagar maður sér? Hvernig upplifir maður sig – og hvað „er“ manneskjan þá gömul í raun og veru! Ef ég myndi ekki vita sjálf að ég væri fimmtíu og tveggja ára þá er alls ekkert víst að ég myndi halda að ég væri fimmtíu og tveggja ára! Svo ef maður tekur það út – að það hún sé ekkert alveg örugg – þessi tala – þá felst ákveðið frelsi í því. Og það er þetta frelsi persónunnar sem er líka einhver gjöf inn í þennan sjúkdóm sem var svolítið spennandi að vinna með. Við Sveinn Ólafur dramatúrg ræddum þetta mikið og þessi hugmynd kemur út úr þeim samræðum okkar – hvernig við getum nálgast þetta sjónarhorn hennar sem best. Og svo er alveg hægt að setja þetta leikrit upp öðruvísi – Ég var einmitt að ræða þetta við manninn minn og hann sagði „svo kemur einhver rosalegur rebel leikstjóri eftir 30 ár og setur þetta upp með gamalli konu“.

Þær Katla skellihlæja

MR: Það væri náttúrulega hægt að setja þetta upp þannig – en það væri allt önnur sýning og við erum líka með þessu að gefa okkur svigrúm í uppfærslunni til þess að fara út úr ákveðnu raunsæi og meira inn í hugarheim hennar. Þetta er ákveðin áhætta og við erum bara að prófa – þetta er nýtt og skemmtilegt – en þannig er leikhúsið. Við leyfum áhorfendum að fá einhverja tilfinningu fyrir hvernig henni líður.

KMÞ: Mér fannst þetta náttúrulega mjög mikil áskorun og spennandi. Fyrst áttum við samtal um þetta – bara – hvaða leið förum við – er ég að fara að sækja mér staf og skuplu.

Þær hlæja

KMÞ: Nei, ég er að grínast – en þið skiljið hvað ég á við – erum við að fara að elda hana/mig eða hvaða leið ætlum við að fara og svo náttúrulega þegar maður les handritið þá eru þetta bara tilfinningar sem maður þekkir svo vel sjálfur, eðlilega. Og eins og Maja segir þá er aldur afstæður og maður upplifir sig ekkert endilega í einhverri tölu. Mér finnst alveg ótrúlega gaman að takast á við þetta og eru tilfinningar sem auðvelt er að finna fyrir sjálfur og spegla sig í og þetta er svo skemmtilegt verk! Það er ljúfsárt en það er svo mikill húmor í því og ótrúleg hlýja í þessum leikhópi

MR: það var alveg svona hjartatenging fyrir mig þegar ég fann að þú ættir að gera þetta Katla.

KMÞ: Ó, en gaman!

MR: Það má svo alveg koma fram að við Sveinn Ólafur byrjuðum að tala um þetta og hann á alveg stóran þátt í þessu ferli – og þessari hugmynd. Ekki að við viljum gefa strákunum allt kreditið – en hann má alveg vera með.

Þær skellihlæja.

MR: Hann á að vera með!

KMÞ: Það verður að feitletra nafnið hans!

MR: En maður fær stundum svona móment – ég var bara að fá mér kaffi heima og þá kemur þetta yfir mig: „Þetta á að vera svona!“ og ég fæ bara tár í augun og fæ hjartatenginguna. „Þetta er rétt“!

MR: Svo er náttúrulega gott hvað við Katla þekkjumst vel og hvað það er mikið traust –

KMÞ: Það skaðar ekki!

MR: Það er 100% traust – við þekkjumst svo vel.

MCL: er eitthvað sem þið viljið bæta við að lokum?

MR: Nei,nei, ég bara vorkenni ykkur að vinna úr þessu!

Þær skellihlæja.

KMÞ: Já – þið megið alveg setja inn í viðtalið að svo segi ég alltaf „Þetta má ekki vera í viðtalinu“ Þetta eru bara ósjálfráð viðbrögð.