Borgarleikhúsið

Alþjóðlegi leiklistardagurinn

27 mar. 2021

Okkar einstaka Elísabet Kristín Jökulsdóttir flytur ávarp í tilefni alþjóðlega leiklistardagsins í samstarfi við RÚV og Sviðslistasamband Íslands. Innilega til hamingju með daginn kæra sviðslistafólk!

Ávarp | Alþjóðlegi leiklistardagurinn

Elísabet Kristín Jökulsdóttir skrifar:

Amma, viltu hlusta á dansinn.

Það er leikhúsið.

Leikurinn er eldri en siðmenningin.
Ljónið og býflugan hafa leikið sér lengur en við.
Það gerir leikinn að uppsprettu lífsins.
*
Úr hverju er leikhús búið til.
Úr þögninni og myrkrinu.
Úr þögninni rétt áðuren tjaldið er dregið frá.
Úr myrkrinu sem við bíðum í áðuren tjaldið er dregið frá.
Leikhúsið er tjaldið.
Einu sinni var barn sem bjó í tjaldi. Barnið kveikti ljós í tjaldinu og það flögruðu fiðrildi kringum tjaldið og einhver lék á spiladós og þá var komin hljómsveit.
Til að halda sér inní tjaldinu þurfti barnið að segja Mundu töfrana.
Svo barnið sagði Mundu töfrana alveg stanslaust.
Og þá kom lírukassaleikari, bróðirinn kom, töfradrottningin kom og skrímslið, allt útaf því að barnið sagði Mundu töfrana. Og það féllu niður snjókorn meðan lírukassaleikarinn lék, lugtirnar skinu skært og skrímslið ætlaði að eyðileggja allt en þá sagði barnið Mundu töfrana og skrímslið sagðist vera raunveruleikinn og sagðist liggja á tári og tárið titraði og þá mundi barnið eftir því að sorgin hafði bankað uppá og nú voru allir að gefa því tár svo það gæti grátið - og til þess var allt þetta vesen, allt þetta leikhús, tilað leysa gátuna um fegurðina, töfrana, og lírukassaleikarann.

Leikhús er búið til persónu A og persónu B. Persóna B horfir á persónu A ganga yfir sviðið og þetta heitir leikhús, að því tilskildu að persóna A sé þess meðvituð um að persóna B sé að horfa á hana.

Leikhús er skvaldrið. Skvaldrið áðuren tjaldið er dregið frá, brakið í nammibréfunum, jafnvel hringingar í farsímum. Næst skaltu hlusta á skvaldrið í áhorfendum sem snarþagnar þegar myrkrið skellur á.

Ég talaði við áhorfanda og hún sagði: Pabbi og mamma voru verkafólk en sáu alltaf til þess að við fórum í leikhúsið. Og hvað er leikhús spurði ég. Og hún svaraði. “Ég veit það ekki, ... það var annar heimur, ... leikritið.”

Ég talaði við leikara; leikhúsið er andardráttur, hreyfing, ryþmi, texti, sagði ein, annar var að undirbúa sýningu með vændiskonum og heimilislausu fólki, þriðja sagði að í leikhúsinu mætti sýna réttarhöld, sálfræðivinnu, partavinnu, leikhúsið væri heimili tilfinninganna.

Ég talaði við leikhúsið; frá Japan, Rússlandi, Eþíópíu, Kólombíu, Líbanon ...

Á sínum tíma varð ég hrædd við leikhúsið því mér fannst leikhúsið eiga meira í pabba mínum en mér. Og þá varð ég hrædd við að fara inní leikhúsið, en ég var líka hrædd um að hafa ekkert að segja í leikhúsinu.

Ég sópaði einu sinni gólfið í leikhúsi og fæ vatn í munninn við tilhugsunina.

Og þegar ég sá leikara á sviði taka í höndina á áhorfenda í sal, handaband á milli leikara og áhorfenda. Persóna A tekur í höndina á persónu B. Passar það inní formúluna?

En ég skal segja þér hvað leikhús er. Trúnaður. Trúnaður á milli A og B.

Trúnaður í hjarta lítillar stúlku.

Leikhúsið er í hjartanu, maganum, hryggsúlunni, leikhúsið er í hryggsúlunni og auðvitað blóðinu.

Ég er með leikhúsið í blóðinu, ég ólst uppí leikhúsi og á efri hæðinni var hún Kristín sem eldaði matinn handa leikurunum, hjá henni fékk ég andabrauð þegar ég varð þreytt á að horfa á æfingar, hverja æfinguna á fætur annarri og leikararnir voru svo góðir, alltaf að faðma mig og brosa til mín. Og leikstjórinn sagði Tökum þetta aftur. Hljóð í salnum. Og ég sat stillt og prúð í sætinu mínu. Það var gaman að labba um í leikmyndinni í pásu. Ég horfði á sömu æfinguna aftur og aftur, alveg einsog ég horfði á Hamlet aftur og aftur þegar ég fékk að fylgjast með æfingum mörgum árum seinna.
Aftur og aftur því ekkert gerist aftur.

Og þessvegna hljómar það aftur:

Amma, viltu hlusta á dansinn.

Í kjól, glimmer og glitrandi.