Borgarleikhúsið

Samþykktir LR

Samþykktir fyrir Leikfélag Reykjavíkur ses. 

Nafn og aðsetur

1.  gr.

Félagið er sjálfseignarstofnun skv. skilgreiningu laga nr. 33/1999 og heitir Leikfélag Reykjavíkur ses. Lögheimili þess og aðalstarfsstöð er í Borgarleikhúsinu, Listabraut 3, 103 Reykjavík. 

Tilgangur

2.  gr.

Tilgangur félagsins er að vekja áhuga á góðri leiklist og sýna sjónleiki í Reykjavík.

3.  gr.

Félagið annast rekstur Borgarleikhússins í Reykjavík og starfsemi sem þar fer fram í samræmi við samkomulag Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur ses. dags. 11. janúar 2001 um eignarhald og rekstur Borgarleikhússins í Reykjavík. 

Félagar, inntaka, úrsögn

4.  gr.

Félagar geta orðið allir áhugamenn um leiklist og leikhúsrekstur Leikfélags Reykjavíkur ses. í Borgarleikhúsi.

5.  gr.

Umsóknir um inntöku skulu vera skriflegar og berast formanni félagsins. Nýr félagi staðfestir félagsaðild sína með greiðslu félagsgjalds og undirskrift samþykkta félagsins. Á næsta félagsfundi skal stjórnin tilkynna um inngöngu nýrra félaga.

6.  gr.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og berast formanni.  Greiði félagsmaður ekki árgjald fellur hann af félagsskrá. Á næsta félagsfundi skal stjórnin tilkynna um úrsögn félaga. 

7.  gr.

Félagsgjöld eru ákveðin af aðalfundi og er gjalddagi 1. september ár hvert. Félagsgjaldið skal vera greitt fyrir aðalfund, enda hafa eigi aðrir rétt til setu á aðalfundi en skuldlausir félagar. Félagar sem náð hafa 70 ára aldri skulu undanþegnir greiðslu félagsgjalda.  Félagsgjöld renna í félagssjóð, sem stjórnin ráðstafar til félagsstarfs og styrktar og hvatningar fyrir félagsmenn. 

Stjórn

8.  gr.

Í stjórn félagsins eiga sæti fimm menn, formaður, varaformaður, ritari og meðstjórnendur, kosnir á aðalfundi skriflegri kosningu. Jafnframt skal kjósa tvo varamenn. Kjörtímabil stjórnarmanna og varamanna er 3 ár og skulu þeir vera fullgildir félagar þegar kosning fer fram. Aldrei skulu fleiri en tveir stjórnarmenn á hverjum tíma vera starfsmenn félagsins. Það ár sem stjórnarkjör fer fram skal stjórn félagsins skipa kjörnefnd til að undirbúa tillögur til aðalfundar um stjórnarmenn fyrir næsta tímabil. Tilkynning um skipan kjörnefndar skal berast félagsmönnum ekki síðar en 1.september.

9.  gr.

Láti stjórnarmaður af störfum eða fullnægi ekki lengur skilyrðum til setu í stjórn skv. samþykktum þessum eða lögum nr. 33/1999, skal varamaður taka sæti hans til loka kjörtímabilsins. Innan eins mánaðar skal stjórnin tilnefna nýjan aðila sem varamann sem situr til loka kjörtímabilsins.

10.  gr.

Stjórnin fer með öll málefni félagsins og ber ábyrgð á leikhúsrekstri fyrir þess hönd. Stjórnin skal vera leikhússtjóra til ráðuneytis um verkefnaval. Undirskrift þriggja stjórnarmanna skuldbindur félagið. Stjórnin ræður leikhússtjóra skv. 15. gr. og framkvæmdastjóra skv. 17. gr.

11.  gr.

Leikhússtjóri og framkvæmdastjóri eiga sæti á stjórnarfundum þar sem fjallað er um leikhúsrekstur félagsins, nema stjórn félagsins ákveði annað í einstökum tilvikum, og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

12.  gr.

Formaður kveður til stjórnarfunda, sem skulu boðaðir með dagskrá. Fund skal og jafnan halda ef einhver stjórnarmanna, leikhússtjóri eða framkvæmdastjóri krefst þess. Um það sem gerist á stjórnarfundum skal haldin gerðabók sem skal undirrituð af þeim er fund sitja. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

13.  gr.

Stjórn skal samþykkja fjárhagsáætlun fyrir hvert leikár áður en það hefst. Fjárhagsáætlun skal byggja á rekstrar- og starfsáætlun. Fjárhagsár er það sama og leikár, frá 1.ágúst til 31.júlí næsta árs. Samþykki stjórnar þarf fyrir öllum kjarasamningum sem gerðir eru í nafni félagsins og leita skal samþykkis hennar fyrir öllum meiri háttar fjárhagsákvörðunum svo og frávikum frá samþykktum fjárhagsáætlunum.

14.  gr.

Stjórn heldur fasta fundi einu sinni í mánuði a.m.k. 10 mánuði ársins. Þar skal fjallað um leikhúsrekstur félagsins og leikhússtjóri og framkvæmdastjóri gefa skriflegar skýrslur um starfsemina, fjárhagsstöðu og horfur og mál sem unnið hefur verið að milli funda.

Leikhússtjóri

15.  gr.

Stjórnin ræður leikhússtjóra til fjögurra ára. Heimilt er að endurráða leikhússtjóra í allt að fjögur ár; hann má þó aldrei sitja lengur en átta ár samfellt. Starf leikhússtjórans skal auglýst laust til umsóknar minnst sex mánuðum áður en ráðningartíma starfandi  leikhússtjóra lýkur. Stjórnin ákveður laun hans og ráðningarkjör og gerir við hann starfssamning, sem er uppsegjanlegur af beggja hálfu með 6 mánaða fyrirvara. Frá þeim tíma að nýr leikhússtjóri kemur til starfa skal hann fara með vald leikhússtjóra í öllum þeim málum er varða starfsemi næsta leikárs, en fráfarandi leikhússtjóri í því sem varðar yfirstandandi leikár. 

16.  gr.

Leikhússtjóri fer með yfirstjórn og hefur yfirumsjón með leikhúsrekstri í umboði stjórnar. Hann ber listræna ábyrgð á starfseminni og rekstrarlega ábyrgð gagnvart stjórninni. Leikhússtjóri semur starfsáætlun og sér um framkvæmd hennar innan marka samþykktrar fjárhagsáætlunar.  Leikhússtjóri ákveður ráðningu listamanna. 

Framkvæmdastjóri

17.  gr.

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra í samráði við leikhússtjóra. Stjórnin ákveður laun hans og ráðningarkjör og gerir við hann ráðningar - og starfssamning.

18.  gr.

Framkvæmdastjóri fer með og ber ábyrgð á: fjármálastjórn, áætlanagerð, verkstjórn, starfsmannastjórn og markaðsmálum. Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri í samráði við leikhússtjóra. Framkvæmdastjóri annast ráðningu annarra starfsmanna en listamanna í samráði við leikhússtjóra. Stjórnin veitir framkvæmdastjóra prókúruumboð fyrir félagið. Hann skal sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna sé með tryggilegum hætti. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórn og endurskoðendum allar þær upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska eftir.

Uppgjör, endurskoðun, meðferð fjármuna.

19.  gr.

Framkvæmdastjóri skal semja árshlutauppgjör skv. ákvörðun stjórnar og ársreikninga fyrir hvert reikningsár og leggja þá fyrir stjórn til staðfestingar. Reikningsár félagsins er frá 1. ágúst til 31. júlí. 

20.  gr.

Aðalfundur kýs endurskoðunarfélag til þess að endurskoða reikninga félagsins og skulu þeir ávallt áritaðir af löggiltum endurskoðanda. 

Aðalfundir og aukafundir

21.  gr.

Aðalfund skal boða með tveggja vikna fyrirvara í bréfi og/eða tölvupósti, sem senda skal öllum félagsmönnum með fullgild félagsréttindi skv. 5., 6., og 7. gr. Aðalfundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað og hann er haldinn á tilskildum tíma.

22.  gr.

Félagsfundir skulu haldnir þegar stjórnin telur þess þörf, þó ekki sjaldnar en einu sinni á hverju leikári, eða ef minnst 7 fullgildir félagsmenn óska þess skriflega. Félagsfundi skal boða með minnst viku fyrirvara, bréflega, rafrænt eða símleiðis.

23.  gr.

Aðalfundarstörf eru þessi:

1. Skýrsla stjórnar og leikhússtjóra
2. Sýrsla framkvæmdastjóra og endurskoðaðir ársreikningar ásamt tillögu um ráðstöfun hagnaðar eða taps lagðir fram til samþykktar.
3. Breytingar á samþykktum félagsins, með þeim fyrirvara að stjórnin hafi fengið breytingatillögur í hendur eigi síðar en 1. september, enda séu slíkar breytingatillögur sendar félagsmönnum með fundarboði.
4. Málefni Eftirlaunasjóðs LR
5. Kosning stjórnarmanna skv. 8. gr.
6. Kosning endurskoðenda skv. 20. gr.
7. Ákvörðun um félagsgjöld
8. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna.
9. Önnur mál.

24.  gr.

Á aðalfundi ræður afl atkvæða nema öðruvísi sé fyrir mælt í landslögum eða samþykktum þessum. 

Heiðursfélagar

25.  gr.

Aðalfundur getur með 3/4 hluta atkvæða þeirra sem á fundi eru, kosið heiðursfélaga hvern skráðan félaga, en utanfélagsmenn því aðeins, að atkvæðin séu samhljóða, hvort tveggja að viðhafðri skriflegri, leynilegri atkvæðagreiðslu. Tillaga um heiðursfélagakjör skal hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en 1. september. Stjórnin ein hefur rétt til að leggja slíka tillögu fyrir aðalfund. Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalds skv. 7. gr., en að öðru leyti eru þeir háðir samþykktum félagsins.

Félagsslit.

26.  gr.

Félaginu verður aðeins slitið með minnst 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi, enda hafi verið sérstaklega til fundarins boðað í því skyni. Skulu skuldlausar eignir félagsins og sjóðir er til verða við félagsslit renna til Leiktjaldasjóðs Reykjavíkur-borgar, sem borgarstjórn Reykjavíkur varðveitir og setji skipulagsskrá um í samræmi við gjafabréf dags. 30. maí 1866 fyrir Coulissusjóð bæjarins.

Ýmis ákvæði.

27.  gr.

Engu má breyta í samþykktum þessum, nema á aðalfundi og þarf minnst 2/3  hluta greiddra atkvæða til að breytingin nái fram að ganga. Ákvæðum 2. gr. um tilgang félagsins og 27. gr. um félagsslit má þó aldrei breyta efnislega.

28.  gr.

Þar sem ekki er öðruvísi kveðið á um í samþykktum þessum gilda ákvæði laga nr. 33/19. mars 1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur og eru þau fylgiskjal með samþykktum þessum.

Samþykktir fyrir LR.

samþykktar á aðalfundi 31. október 2011 og endurstaðfestar á aðalfundi 3. nóvember 2012.