Hádegisfyrirlestrar Leikfélags Reykjavíkur

Leikfélag Reykjavíkur var stofnað fyrir meira en 120 árum og hefur frá upphafi verið metnaðarfullur félagsskapur. Í vetur stendur félagið fyrir umræðum og fyrirlestrum fyrir félagsfólk og aðra um leiklist fyrr og nú. Fyrirlestrarnir fara fram í forsal Borgarleikhússins og verður hægt að kaupa léttan hádegisverð og njóta undir fyrirlestrum og spjalli.

4. september. Einn leikari, einsamall

Ólafur Egill Egilsson og Valur Freyr Einarsson segja frá uppfærslunni á Allt sem er frábært. Margrét Helga Jóhannsdóttir segir frá verkinu Sigrún Ástrós eftir Willy Russell sem sýnt var í Borgarleikhúsinu árið 1990.

25. september. Hvað gerðist eiginlega eftir að Nóra skellti hurðinni?

Una Þorleifsdóttir segir frá Dúkkuheimili, 2. hluti og Harpa Arnardóttir segir frá sviðsetningu á Dúkkuheimili Ibsens frá 2014. Sveinn Einarsson, fyrrverandi leikhússtjóri og heiðursfélagi LR rifjar upp fyrri sýningar.

23. október. Vonarstjörnur

Hrafnhildur Hagalín kynnir ungskáld vetrarins og segir frá því markverðasta sem er að gerast í leikritun þ.á.m. Núna! 2019 sem verður frumsýnt í janúar. Einnig segir Ólafur Egill Egilsson frá fyrsta leikriti Jóns Magnúsar Arnarssonar, Tvískinnungur, ásamt höfundi.

8. janúar. Illa áttaðir ungir menn

Brynhildur Guðjónsdóttir segir frá Ríkharði III, jólasýningu Borgarleikhússins. Kjartan Ragnarsson segir frá sýningunni á Hamlet í Iðnó árið 1988.

19. mars Söngleikir

Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri Matthildar, sem sviðsett hefur marga stóra söngleiki segir frá söngleikjaleikstjórn. Edda Þórarinsdóttir, leikkona, segir frá uppsetningu Litla leikfélagsins á Poppleiknum Óla í samstarfi við Óðmenn í Tjarnarbíói 1970.

30. apríl Áleitið og ögrandi leikhús

Leikstjórinn Gréta Kristín Ómarsdóttir segir frá Bæng! eftir Marius von Mayeburg. Sveinn Einarsson og Þórunn Sigurðardóttir leikkona segja frá Ivonne Búrgundaprinsessa eftir Witold Gombrowicz, sem sýnd var árið 1968 í Iðnó.