Borgarleikhúsið

Hádegisfyrirlestrar Leikfélags Reykjavíkur

Leikfélag Reykjavíkur er eitt elsta starfandi menningarfélag landsins, stofnað fyrir meira en 120 árum. Það hefur staðið fyrir metnaðarfullum viðburðum í gegnum tíðina og var meðal annars drífandi í byggingu glæsilega leikhússins okkar. Borgarleikhúsið hefði aldrei risið án þessa félags. Síðastliðinn vetur stóð leikfélagið fyrir skemmtilegum hádegisfundum um leiklist fyrr og nú.

Í vetur verður haldið áfram í svipuðum dúr í Forsal Borgarleikhússins. Léttur og hressandi hádegisverður sem fólk getur keypt og gætt sér á undir fyrirlestrum og spjalli. Þar að auki fá félagar boð á samlestra og opnar æfingar og ýmsa aðra viðburði í leikhúsinu.

Leikfélag Reykjavíkur er öllum opið og almennt félagsgjald er 6.000 krónur. Kortagestir Borgarleikhússins fá félagsaðild með helmings afslætti, á 3.000 krónur og að sjálfsögðu er ókeypis fyrir 70+. Handhafar Lúxuskorta eiga þess kost að gerast félagar án endurgjalds. Upplýsingar um Leikfélagið, sögu þess og samþykktir er að finna á vef Borgarleikhússins, borgarleikhus.is.

Veisla–revíur

Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Saga Garðarsdóttir fjalla um erindi revíunnar nú á tímum og segja frá sýningunni Veislu. Una Margrét Jónsdóttir sem hefur rannsakað revíurnar og gert um þær útvarpsþætti segir frá revíum fyrri tíma.

Áratugir í leikhúsinu

Jóhann Sigurðarson og Sigrún Edda Björnsdóttir hafa verið leikhúspar á fjölum leikhúsanna í fjörutíu ár. Þau segja frá leiklistarferlinum og lífinu í leikhúsinu og hvernig þau viðhalda leikhæfileikum sínum, andlegum og líkamlegum.

Leikskáld Borgarleikhússins

Matthías Tryggvi Haraldsson og Eva Rún Snorradóttir segja frá sér, vinnu sinni á leiklistarsviðinu og hugmyndum sínum um leikritun og leikhús á 21. öld.

Svava Jakobsdóttir

Málþing um leikrit Svövu Jakobsdóttur og leikritun íslenskra kvenna. Framsöguerindi, pallborðsumræður og leiklestur á leikriti Svövu, Lokaæfingu.