Hádegisfyrirlestrar Leikfélags Reykjavíkur

Leikfélag Reykjavíkur er eitt elsta starfandi menningarfélag landsins, stofnað fyrir meira en 120 árum. Það hefur staðið fyrir metnaðarfullum viðburðum í gegnum tíðina og var meðal annars drífandi í byggingu glæsilega leikhússins okkar. Borgarleikhúsið hefði aldrei risið án þessa félags. Síðastliðinn vetur stóð leikfélagið fyrir skemmtilegum hádegisfundum um leiklist fyrr og nú.

Í vetur verður haldið áfram í svipuðum dúr í Forsal Borgarleikhússins. Léttur og hressandi hádegisverður sem fólk getur keypt og gætt sér á undir fyrirlestrum og spjalli. Einnig hyggst félagið minnast þess, með veglegum hætti, að þrjátíu ár eru liðin frá vígslu Borgarleikhússins. Þar að auki fá félagar boð á samlestra og opnar æfingar og ýmsa aðra viðburði í leikhúsinu.

Leikfélag Reykjavíkur er öllum opið og almennt félagsgjald er 6.000 krónur. Kortagestir Borgarleikhússins fá félagsaðild með helmings afslætti, á 3.000 krónur og að sjálfsögðu er ókeypis fyrir 70+. Handhafar Lúxuskorta eiga þess kost að gerast félagar án endurgjalds. Upplýsingar um Leikfélagið, sögu þess og samþykktir er að finna á vef Borgarleikhússins, borgarleikhus.is.

Þriðjudagur 8. október kl. 12-13
Farsar og Leikfélag Reykjavíkur eru tvenna sem margir þekkja
Fló á skinni og Sex í sveit hafa verið vinsælustu farsar Leikfélagsins. Bergur Þór Ingólfsson hefur leikstýrt og leikið í mörgum Leikfélagsförsum. Gísli Rúnar Jónsson hefur þýtt og staðfært fjölmarga farsa og þekkir þá og lögmál þeirra betur en margir aðrir. Þeir Bergur og Gísli leiða okkur inn í heim farsans.

Þriðjudagur 14. janúar kl. 12-13
Vanja frændi / Sögur úr sveitinni
Brynhildur Guðjónsdóttir, leikstjóri segir frá uppfærslu sinni á Vanja frænda og Kjartan Ragnarsson rifjar upp sviðsetningu sína á Sögur úr sveitinni sem voru tvö leikrit Tsjékhovs, Vanja frændi og Platonov.

Þriðjudagur 18. febrúar kl. 12-13
Gosi og barnaleikritiní Borgarleikhúsinu, stór og smá
Ágústa Skúladóttir segir frá sýningunni Gosi og fyrri barnaleikritum sínum. Bergur Þór Ingólfsson sem hefur leikstýrt, samið og leikið í mörgum barnasýningum, stórum og smáum, segir frá verkefnum sínum með áherslu á stórsýningarnar Matthildur, Blái hnötturinn, Billy Elliot og Mary Poppins og fjallar einnig um eigin leikrit, Horn á höfði, Hamlet litli og Sókrates.

Þriðjudagur 17. mars kl. 12-13
Bubbi, leiksýningar um stjörnur
Ólafur Egill Egilsson, leikstjóri fjallar um sýningu sína Níu líf ásamt því að fjalla um stjörnusýninguna Elly sem hann átti stóran hlut í. Líkt og Elly hefur Bubbi heillað landsmenn með söng sínum í áratugi. Þau eru bæði stjörnur sem samofnar eru þjóðarsálinni. Bubbi mun einnig mæta með gítarinn og flytja nokkur lög.

Þriðjudagur 7. apríl kl. 12-13
Veisla – revíur
Dóra Jóhannsdóttir og Saga Garðarsdóttir fjalla um erindi revíunnar nú á tímum og segja frá sýningunni Veisla. Revíur eru merkileg alþýðuskemmtun sem forðuðu Leikfélagi Reykjavíkur oftar en einu sinni frá fjárhagslegu strandi. Una Margrét Jónsdóttir sem hefur rannsakaði revíurnar og gert um þær útvarpsþætti segir frá revíum fyrri tíma.

„Við byggjum leikhús“
Borgarleikhúsið var vígt 20. nóvember 1989 og er byggingin því þrjátíu ára. Leikfélagið hyggst minnast þessara tímamóta með veglegum hætti. Nánar kynnt síðar.