Hádegisfyrirlestrar Leikfélags Reykjavíkur

Leikfélag Reykjavíkur er eitt elsta starfandi menningarfélag landsins, stofnað fyrir meira en 120 árum. Það hefur staðið fyrir metnaðarfullum viðburðum í gegnum tíðina og var meðal annars drífandi í byggingu glæsilega leikhússins okkar. Borgarleikhúsið hefði aldrei risið án þessa félags. Síðastliðinn vetur stóð leikfélagið fyrir skemmtilegum hádegisfundum um leiklist fyrr og nú.

Í vetur verður haldið áfram í svipuðum dúr í Forsal Borgarleikhússins. Léttur og hressandi hádegisverður sem fólk getur keypt og gætt sér á undir fyrirlestrum og spjalli. Þar að auki fá félagar boð á samlestra og opnar æfingar og ýmsa aðra viðburði í leikhúsinu.

Leikfélag Reykjavíkur er öllum opið og almennt félagsgjald er 6.000 krónur. Kortagestir Borgarleikhússins fá félagsaðild með helmings afslætti, á 3.000 krónur og að sjálfsögðu er ókeypis fyrir 70+. Handhafar Lúxuskorta eiga þess kost að gerast félagar án endurgjalds. Upplýsingar um Leikfélagið, sögu þess og samþykktir er að finna á vef Borgarleikhússins, borgarleikhus.is.

Veisla–revíur 22.09. / kl. 12–13 

Bergur Þór Ingólfsson og Saga Garðarsdóttir fjalla um erindi revíunnar nú á tímum og segja frá sýningunni Veislu. Revíur eru merkileg alþýðuskemmtun sem forðuðu Leikfélagi Reykjavíkur oftar en einu sinni frá fjárhagslegu strandi. Una Margrét Jónsdóttir sem hefur rannsakað revíurnar og gert um þær útvarpsþætti segir frá revíum fyrri tíma.

Áratugir í leikhúsinu 20.10. / kl. 12–13 

Jóhann Sigurðarson og Sigrún Edda Björnsdóttir hafa verið leikhúspar á fjölum leikhúsanna í fjörutíu ár. Þau segja frá leiklistarferlinum og lífinu í leikhúsinu og hvernig þau viðhalda leikhæfileikum sínum, andlegum og líkamlegum.

Leikskáld Borgarleikhússins 17.11. / kl. 12–13 

Matthías Tryggvi Haraldsson og Eva Rún Snorradóttir segja frá sér, vinnu sinni á leiklistarsviðinu og hugmyndum sínum um leikritun og leikhús á 21. öld.

Sölumaður deyr & Orlandó 19.01. / kl. 12–13 

Kristín Jóhannesdóttir fjallar um sviðsetningu sína á Sölumaður deyr eftir Arthur Miller og Arnbjörg María Danielsen segir frá sviðsetningu sinni á Orlandó eftir Virginiu Woolf.

Svava Jakobsdóttir 20.02. / kl. 11–14 

Málþing um leikrit Svövu Jakobsdóttur og leikritun íslenskra kvenna. Framsöguerindi, pallborðsumræður og leiklestur á leikriti Svövu, Lokaæfingu.

Caligula og Albert Camus 23.03./ kl. 12–13 

Javor Gardev leikstjóri verksins og Friðrik Rafnsson, þýðandi verksins, segja frá sviðsetningu Caligula og menningarlegu umhverfi Albert Camus.