Borgarleikhúsið

Fjórar kanónur í Borgarleikhúsinu

1 jún. 2021

Þetta er í fyrsta sinn sem Edda Björgvinsdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Kristbjörg Kjeld og Margrét Guðmundsdóttir leika saman í verki og Margrét hefur aldrei leikið í Borgarleikhúsinu áður. Sem er ótrúlegt!

Á ljúfu síðdegi sitja fjórar nágrannakonur í bakgarði einnar þeirra og ræða allt milli himins og jarðar: sápuóperur, barnabörnin, horfnar hverfisverslanir, drauma um að fljúga og óstjórnlegan ótta við ketti. Undir broslegum hversdeginum krauma leyndarmál og sársauki langrar ævi og allt um kring leynist yfirvofandi – eða afstaðinn – heimsendir. 


Caryl Churchill (f. 1938) er eitt helsta og afkastamesta leikskáld Breta síðustu áratuga, en eftir hana liggja á sjötta tug leikverka fyrir svið, útvarp og sjónvarp. Caryl Churchill byrjaði að skrifa leikverk um tvítugt og hafði sent frá sér þó nokkur útvarps- og sjónvarpsverk þegar hún sló í gegn með verkunum Cloud 9 og Top Girls í kringum 1980, sem festi hana í sessi sem eitt athyglisverðasta leikskáld sinnar samtíðar. Leikrit Churchill eru gríðarlega fjölbreytt og hefur hún aldrei verið feimin við að leita á ný mið hvað varðar form og byggingu. Verk hennar einkennast mörg hver af skarpri og óvenjulegri samfélagsrýni þar sem hversdaglegar aðstæður eru brotnar upp með súrrealískum og jafnvel ógnvænlegum innskotum. Staða kvenna og valdatengsl kynjanna hafa alla tíð verið áberandi í verkum Churchill. 

Ein komst undan er skrifað fyrir fjórar leikkonur sem allar eru að minnsta kosti sjötugar og þar eru sögur eldri kvenna í forgrunni, kvenna sem hafa staðið af sér áföll og árekstra í heimi sem virðist stöðugt á heljarþröm. Ein komst undan er þriðja verk Caryl Churchill sem ratar á svið á Íslandi. Árið 1985 sýndi Alþýðuleikhúsið Top Girls, sem á íslensku hét Klassapíur, og árið 2009 var einþáttungurinn Sjö gyðingabörn sýnt í Borgarleikhúsinu.

Höfundur: Caryl Churchill 
Þýðing: Kristín Eiríksdóttir
Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir
Tónlist: Garðar Borgþórsson
Leikmynd og búningar: Móeiður Helgadóttir og Egill Ingibergsson
Leikarar: Edda Björgvinsdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Kristbjörg Kjeld og Margrét Guðmundsdóttir 

Mynd frá Fréttablaðinu tekin af Anton Brink.