Borgarleikhúsið

Frábærar viðtökur á söngleiknum um Bubba

21 jan. 2020

Nú hafa yfir 9000 miðar selst á söngleikinn Níu líf, sem fjallar um Bubba Morthens í tali og tónum, en miðasalan hófst á laugardaginn. Ólafur Egill Egilsson er höfundur verksins og leikstjóri sýningarinnar sem verður frumsýnd á Stóra sviði Borgarleikhússins föstudaginn 13. mars.

„Við þökkum kærlega fyrir frábærar viðtökur. Við erum svo sannarlega í skýjunum yfir þeim,“ segir Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri. „Við hlökkum mikið til þess að setja magnaða sögu Bubba Morthens á svið og það gefur öllum hópnum aukinn kraft að finna fyrir áhuga á fólks á þessari sýningu.“

Í liðinni viku var fyrsta tóndæmið úr sýningunni frumflutt þegar ný útgáfa af einu vinsælasta lagi Bubba, Rómeó og Júlía, var gefið út. Það eru þau Rakel Björk Björnsson og Aron Már Ólafsson sem syngja lagið og hljómsveit sýningarinnar undir stjórn tónlistarstjórans Guðmundar Óskars spilar undir.

Auk Rakelar Bjarkar og Aron Más leika í verkinu þau Björn Stefánsson, Esther Talia Casey, Halldóra Geirharðsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jóhann Sigurðarson og Valur Freyr Einarsson.

Listrænir stjórnendur auk Ólafs eru Ilmur Stefánsdóttir, leikmyndahöfundur, Filippía I. Elísdóttir, búningahöfundur, Björn Bergsteinn Guðmundsson, lýsing og Gunnar Sigurbjörnsson, hljóð.