Borgarleikhúsið

Fyrsta Skjáskotið með Bergi Ebba í kvöld

19 nóv. 2019

Bergur Ebbi fer af stað með sýninguna Skjáskot í kvöld en innihald hennar er byggt á samnefndri bók sem kom út fyrir stuttu. 

Hver er staða manneskjunnar í rafrænum heimi þar sem allar hugsanir fá einkunn, flokkun og umsagnir? Eru nýjar kynslóðir frekari en þær fyrri eða er réttlætið loks að sigra? Hvers vegna heldur veröldin áfram þrátt fyrir kúariðu, 2000-vanda, Brexit eða Trump? Hver er æðsti ótti nútímamannsins? Hræðumst við ekki lengur eld og tortímingu, heldur þvert á móti þá staðreynd að framvegis mun aldrei neitt gleymast né eyðast?

Þetta eru nokkrar af þeim áleitnu spurningum sem Bergur Ebbi, uppistandari og rithöfundur leitar svara við í fyrirlestri sínum sem byggður er á bókinni Skjáskot sem kom nýverið út á vegum Máls & Menningar.

Sýningin er hluti af nýjung í Borgarleikhúsinu á þessu leikári þar sem boðið er upp á kvöldstundir með listamönnum. Þetta er önnur sýningin af þremur sem verður í boði í vetur. Sú fyrsta var Um tímann og vatnið með Andra Snæ Magnasyni og svo verður Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttur á Nýja sviðinu í vor.