Borgarleikhúsið

  • DSC00290

Dýrmæt heimsókn í Borgarleikhúsið

2 mar. 2021

Gleðin var við völd á sunnudaginn síðastliðinn þegar Borgarleikhúsið tók á móti hópi barna sem eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi. Hópurinn tók þátt í samveru og leiklistarsmiðju sem kallast Léttir og er verkefni á vegum Leiklistarskóla Borgarleikhússins.


Verkefnið er styrkt af Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar og er hluti af þeirri vegferð Borgarleikhússins að auka aðgengi að menningarstarfsemi hússins. Borgarleikhúsinu var mikill heiður að geta boðið til sín þessum þátttakendum, en þetta voru átta börn á aldrinum 6-12 ára og fengu þau m.a. að velja sér búninga og spreyta sig í leiklistarspuna. Áhersla var lögð á sköpun og leikgleði og að reyna leiklistarkennslu með lágmarks áherslu á tungumálið. Þátttakendur fóru einnig í skoðunarferð um húsið og að lokum bauð sviðslistahópurinn Hin fræga önd öllum á sýninguna Fuglabjargið.

Verkefnastjóri var Emelía Antonsdóttir Crivello, skólastjóri Leiklistarskóla Borgarleikhússins en auk hennar kenndi Eva Halldóra Guðmundsdóttir í smiðjunni.

„Það er sorgleg staðreynd að það eru ákveðnir samfélagshópar sem hafa takmarkaðan aðgang að leikhúsi. Leiklistarskóli Borgarleikhússins býður upp á metnaðarfullt leiklistarnám fyrir börn og því miður er það einnig þannig að börn sem tilheyra þessum viðkvæmu samfélagshópum skila sér síður í námið til okkar. Það er því sérstaklega ánægjulegt geta boðið þessum hópi barna á leiklistarnámskeið og í leikhús. Í þessu tilfelli voru þau öll nema eitt að upplifa leikhús í fyrsta sinn á ævinni.” sagði Emelía.

Meðfylgjandi eru myndir frá heimsókninni.