Málþing um Jóhann Sigurjónsson

11 okt. 2019

Leikfélag Reykjavíkur heldur málþing um Jóhann Sigurjónsson í tilefni af 100 ára dánardægri hans verður haldið í Borgarleikhúsinu laugardaginn 12. október kl. 11. Jóhann var eitt af okkar fyrstu „alvöru“ leikskáldum.

Leikfélag Reykjavíkur efnir til málþings í Borgarleikhúsinu laugardaginn 12. október í tilefna af 100 ára dánardægri hans og hefst það kl. 11:00 á Litla sviðinu.

Jóhann var eitt okkar fyrstu „alvöru“ leikskálda. Hann skrifaði reyndar á dönsku en engu að síður hafa leikrit hans lifað á íslensku leiksviði til þessa dags: Fjalla-Eyvindur og Galdra-Loftur. Önnur leikrit hans, Skugginn, Bóndinn á Hrauni, Lyga-Mörður og Rung læknir komust ekki á jafn mikið flug. Leikfélag Reykjavíkur hefur sviðsett Galdra-Loft (Óskina) fimm sinnum og munu leikarar félagsins leiklesa verkið í lok málþingsins. Lesin verður sviðsgerð Páls Baldvins Baldvinssonar sem frumsýnd var á Litla sviði Borgarleikhússins árið 1994. Magnús Þór Þorbergsson, leiklistarfræðingur, mun flytja aðalerindið um Jóhann og verk hans sem hann nefnir Útilegumenn og búðarlokur. Einnig mun Sveinn Einarsson, leikstjóri, kynna nýja bók sína um Jóhann sem ber titilinn Úti regnið grætur og segja frá niðurstöðum rannsókna sinna á lífi og skáldskap Jóhanns. Pallborðsumræður ungs sviðslistafólks verða að erindum loknum. Það verða þau Pálína Jónsdóttir, leikstjóri, Hallveig Kristín Eiríksdóttir og Birnir Jón Sigurðsson, sviðslistahöfundar, auk Magnúsar Þórs sem sitja til borðs. 

Að loknum umræðum og veitingum munu leikarar Leikfélags Reykjavíkur leiklesa Óskina (Galdra-Loft) í sviðsgerð Páls Baldvins Baldvinssonar.

Leikarar eru, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Halldór Gylfason, Jörundur Ragnarsson og Haraldur Ari Stefánsson munu leiklesa. 

Allir eru velkomnir – Í hléi verður boðið upp á veitingar í forsal leikhússins.