Borgarleikhúsið

Níu líf leiksýning ársins á Grímunni

15 jún. 2022

Grímuverðlaunahátíðin fór fram í gær 14. júní við hátíðlega athöfn og hlaut Borgarleikhúsið sex verðlaun í heildina.


Mikil fagnaðarlæti urðu þegar sýningin Níu líf eftir Ólaf Egilsson var kosin leiksýning ársins en Ólafur leikstýrir einnig þessari mögnuðu sýningu. Halldóra Geirharðsdóttir fékk tvær Grímur, sem leikkona ársins í aðalhlutverki og sem Söngvari ársins fyrir hlutverk sitt sem Egó Bubbi í Níu lífum. 

Dásamlega fjölskyldusýningin Emil í Kattholti var valin barnasýning ársins og tók leikstjóri sýningarinnar Þórunn Arna Kristjánsdóttir við verðlaununum. 

Hin 88 ára gamla leikkona Margrét Guðmundsdóttir hlaut Grímuna fyrir leikkonu ársins í aukahlutverki fyrir ógleymanlega frammistöðu sína í Ein komst undan. 

Sproti ársins fór til verkefnisins Umbúðalaust þar sem grasrót leiklistarinnar hefur fengið að blómsta með dyggum stuðningi leikhússins. Leiksýningar Umbúðalauss munu halda áfram á næsta leikári bæði með fyrri þátttakendum og glænýjum. Starfsfólk Borgarleikhússins er alsælt með þessar glæsilegu Grímur og hlakkar til að hitta leikhúsgesti aftur á næsta leikári.