Borgarleikhúsið

ÖLLUM TIL HEILLA samtal um samfélagslistir

15 feb. 2022

ReykjavíkurAkademían, í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands, Listahátíð í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Borgarleikhúsið, Reykjavíkurborg og List án landamæra, stendur fyrir viðburðaröðinni ÖLLUM TIL HEILLA.


Þar verður sjónum beint að mikilvægi samfélags- og þátttökulista (e. Community and Participatory Art) við inngildingu allra í samfélagið, lista sem leyfa óvæntum röddum að berast og bregða upp myndum af lífum þeirra sem búa við hvers kyns skerðingar og jaðarsetningu .

Viðburðirnir eru fimm talsins. Sá fyrsti verður haldinn í Borgarleikhúsinu 16. febrúar en lokaviðburðurinn í Klúbbi Listahátíðar í Iðnó 15. júní.

Vegna samgöngutakmarkana þarf að skrá þátttöku á upphafsviðburðinn í Borgarleikhúsinu Tix.is.

Öllum viðburðunum er streymt á akademia.is/ollum og þar er hægt að skrá sig til þátttöku í röðinni sem heild, kynna sér dagskrá og fyrirlesara og nálgast upptökur að viðburðunum loknum, bæði með íslensku táknmáli og með íslenskum og enskum texta. Hjólastólaaðgengi er að viðburðum í sal.

Við hvetjum öll sem eru áhugasöm um umbreytingar- og inngildingarmátt listanna til að mæta á viðburði og taka þátt í umræðum sem þar fara fram sem og í lokuðum FB hópi viðburðaraðararinnar.

HVAÐ ERU SAMFÉLAGSLISTIR?
16. febrúar kl. 15:00-17:00 á Stóra sviði Borgarleikhússins og í beinni útsendingu.

François Matarasso, rithöfundur og samfélagslistamaður

A Restless Art – Why participation won, and why it mattersHin kvika list – hvers vegna þátttaka skiptir máli

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir fötlunarlistamaður og sviðshöfundur og Ásrún Magnúsdóttir danshöfundur:Go for it girlKýldu á það, stelpaGestgjafarnir Björg Árnadóttir, rithöfundur og félagi í ReykjavíkurAkademíunni og Jóhanna Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Listar án landamæra, leiða samtal í sal og á neti.

LISTSKÖPUN OG SAMVINNA: LEIÐIR AÐ VIRKNI OG VELFERÐ

Samvinnu- og þróunarverkefni Listaháskóla Íslands16. mars kl. 12:00: Textuð og túlkuð útsending með umræðum á netinu.

Ný námslína á meistarastigi við listkennsludeild LHÍ hefst líkast til á þessu ári. Námið er sniðið að listamönnum, sem hafa áhuga á að styrkja félagslega þátttöku, virkni og vellíðan einstaklinga í sínum störfum. Dr. Kristín Valsdóttir, deildarforseti listkennsludeildar og kennarar við deildina, þær dr. Halldóra Arnardóttir listfræðingur og dr. Unnur Óttarsdóttir listmeðferðarfræðingur kynna aðferðir sínar og rannsóknir og Sigrún Sævarsdóttir- Griffiths, stofnandi MetamorPhonics, segir frá tónlistarstarfi sínu víða um heim.

Gestgjafi er Magnea Tómasdóttir, söngkona og stundakennari við LHÍ.

INNGILDING Í ORÐUM OG AURUM13. apríl kl. 12:00: Textuð og túlkuð útsending með umræðum á netinu.

Orðið inngilding (e. inclusion) er mikið notað í opinberri stefnumótun og hér kynna Signý Leifsdóttir, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sérfræðingur hjá Rannís og Erasmus+ og Hildur Jörundsdóttir, sérfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneytinu inngildingaráherslur í menningarstefnum stofnana sinna. Samfélagslistamenn segja á móti frá erfiðleikunum við að fjármagna verkefni sín.

Gestgjafi er Erling Jóhannesson, forseti Bandalags íslenskra listamanna.

SÖGUR AF SAMFÉLAGSLISTUM11. maí kl. 12:00: Textuð og túlkuð útsending með umræðum á netinu:

Patrik Krebs, leikhússstjóri Heimilislausa leikhússins í Bratislava, segir frá átján ára starfsemi leikhússins og ERROR alþjóðlegrar leiklistarhátíðar heimilislausra. Rúnar Guðbrandsson leikstjóri segir frá Ethos – heimilislausu leikhúsi í Reykjavík og Edna Lupita, dans- og leiklistarkennari talar um glímu sína við geðhvörf og sýnt verður úr kvikmyndinni EKKI EINLEIKIÐ / ACTING OUT sem Ásthildur Kjartansdóttir og Anna Þóra Steinþórsdóttir gerðu um líf og list Ednu.

Gestgjafar: Björg Árnadóttir ReykjavíkurAkademíunni og Ingvi Kristinn Skjaldarson flokksleiðtogi Hjálpræðishersins í Reykjavík

LANGBORÐ: HVER ERU ÓSÝNILEG Í ÍSLENSKU LISTALÍFI?15. júní kl. 12:00-14:00 í Klúbbi Listahátíðar, Iðnó og í beinni útsendingu

Raddir hverra heyrast ekki íslensku listalífi? Hver eru ekki meðal áhorfenda? Verk hverra sjáum við ekki og hver sjáum við ekki standa á stóru sviðunum? Hvernig geta lista- og menningarstofnanir spornað gegn mismunun jaðarlistafólks? Verið velkomin að langborði þar sem heiðarlegt samtal er eini rétturinn. Auk almennra gesta verður talsfólk ólíka jaðarhópa og fulltrúar lista- og menningarstofnana í salnum. Engin eru yfir önnur hafin og öllum frjálst að láta rödd sína heyrast.

Gestgjafarnir, Vigdís Jakobsdóttir listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík og Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands, slíta ÖLLUM TIL HEILLA með táknrænum gjörningi.