Borgarleikhúsið

  • Sigrún Edda

Sigrún Edda sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu

2 jan. 2021

Sigrún Edda Björnsdóttir, leikkona við Borgarleikhúsið, var í gær sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Riddarakrossinn fékk hún fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar. Alls voru 14 manns sæmdir riddarakrossi á Bessastöðum í gær, 1. janúar 2021.


Sigrún Edda Björnsdóttir útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1981 og hefur leikið yfir hundrað hlutverk á leiksviðum landsins. Hún hefur lengst af starfað fyrir Leikfélag Reykjavíkur í Iðnó og í Borgarleikhúsinu. Meðal annars lék hún titilhlutverkin í Línu Langsokk, Elínu Helenu, Ronju Ræningjadóttur, Milljarðamærinni, Fegurðardrottningunni frá Línakri og Hinu ljósa mani. Hún lék Ófelíu í Hamlet, Steinunni í Galdra Lofti, Sonju í Vanja frænda, Úu í Kristnihaldi undir Jökli, Maju í Öndvegiskonum, Ljúbu í Kirsuberjagarðinum og Hertogafrúna af Jórvík í Ríkharði lll. Hún hefur leikið í fjölda söngleikja, meðal annars ógleymanlega ömmuna í Billy Elliot. Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem leikkona ársins í aðalhlutverki í Sporvagninum Girnd, Milljarðamærinni, Fjölskyldunni, Fólkinu í kjallaranum, Gullregni og fyrir Kartöfluæturnar. Hún hlaut Grímuna fyrir hlutverk sín í Degi vonar og í Fólk, staðir, hlutir. Sigrún Edda var tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir Stjörnur á morgunhimni, Fegurðardrottninguna frá Línakri, Milljarðamærina og Kartöfluæturnar. Hún hlaut Stefaníustjakann árið 2007.

Sigrún Edda er landsmönnum að góðu kunn úr sjónvarpi og kvikmyndum og má þar nefna aðalhutverkið í kvikmyndinni Gullregn. Helstu leikstjórnarverkefni Sigrúnar Eddu eru Píkusögur, Ronja Ræningjadóttir sem hlaut Grímutilnefningu og Ævintýri í Iðnó. Hún hefur síðustu 20 ár skrifað, leikstýrt og leikið í sjónvarpsþáttunum um Bólu tröllastelpu. Hún hefur leikstýrt í útvarpsleikhúsinu m.a. Engli í Vesturbænum sem hlaut Grímutilnefningu og Skáld leitar harms sem hlaut Grímuverðlaunin. Hún hefur skrifað barnabækur, leikgerðir, myndasögur, tölvuleiki, útvarps- og sjónvarpsþætti þar á meðal barnabækurnar um Innipúkann og Krakkana í Kátugötu, Með Bólu og myndasöguna Rakkarapakk.

Nú síðast fór hún með hlutverk Hertogafrúarinnar af Jórvík í Ríkharði III og hlaut einróma lof fyrir frammistöðu sína, einnig lék hún Maríu í Vanja frænda við góðan orðstír. Á því óvenjulega ári sem nýlokið er æfði Sigrún Edda leiksýninguna Veislu sem enn bíður frumsýningar og í byrjun desember hófust æfingar á Sölumaður deyr eftir Arthur Miller. Þar fer Sigrún Edda með burðarhlutverk á móti bekkjarfélaga sínum í Leiklistarskólanum, Jóhanni Sigurðarsyni en þau fagna þar fjörtíu ára leikafmæli sínu.

Starfsfólk Borgarleikhússins óskar Sigrúnu Eddu hjartnlega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu fyrir stórkostlegt framlag hennar til íslenskrar leiklistar.

Mynd tekin af Gunnari G. Vigfússyni.