Borgarleikhúsið

Sýningar á Kvenfólki hefjast í Borgarleikhúsinu

21 nóv. 2018

Fimmtudaginn 22. nóvember hefjast sýningar á leikritinu Kvenfólk á Nýja sviði Borgarleikhússins. Það er dúettinn vinsæli Hundur í óskilum, Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson, sem fara með aðalhlutverk en þeir eru einnig höfundar verksins. 

Leiksýningin var frumsýnd hjá Leikfélagi Akureyrar í september í fyrra og sló þar rækilega í gegn. Hún var síðar tilnefnd til þriggja Grímuverðlauna.

Sem fyrr varpa þeir óvæntu ljósi á Íslandssöguna með húmorinn að vopni. Fyrri sýningum þeirra, Sögu þjóðar og Öldinni okkar, var gríðarlega vel tekið af gagnrýnendum og gestum. Sú fyrri hlaut Grímuverðlaun árið 2012 og sú seinni gekk fyrir fullu húsi í Samkomuhúsinu á Akureyri og svo í Borgarleikhúsinu.

Að þessu sinni taka þeir fyrir sögu kvenna og kvennabaráttunnar. Í texta um verkið segir að „frá því að konan kom til landsins í lok nítjándu aldar hafa íslenskir karlmenn gert sitt besta til að laga sig að breyttum aðstæðum. En hefur okkur tekist sem skyldi? Sagan greinir frá örfáum konum – raunar svo fáum að það er búið að skíra rakettur í höfuðið á þeim öllum.“

Hundur í óskilum veltir við hverjum steini og grefur upp ýmislegt óvænt og skemmtilegt í sögu jafnréttisbaráttunnar. Útkoman er drepfyndin sagnfræði með söngvum.

Fljótlega seldist upp á allar sýningar fram að jólum og var eftirspurnin svo mikil að bæta þurfti við aukasýningum. Sala á sýningar í janúar 2019 er hafin.

Kvenfólk