Borgarleikhúsið

Oklahoma! - Söngskóli Sigurðar Demetz

  • Nýja sviðið
  • 3 klst með hlé, Eitt hlé
  • Verð: 5.990

Oklahoma! - Söngskóli Sigurðar Demetz

Söngleikjadeild söngskóla Sigurðar Demetz frumsýnir kúrekasöngleikinn víðfræga á nýja sviði Borgarleikhússins. Hér er um einn þekktasta söngleik í heimi að ræða með dúndrandi hressum lögum, gríni og dunandi dansi.

Nýleg endurhugsun á verkinu hefur farið sem eldur um sinu um hinn alþjóðlega söngleikjaheim og verður fróðlegt að sjá áherslur á verkinu árið 2024 hjá okkar fólki.

Verkið er frábært fyrir alla aldurshópa svo komið í Borgarleikhúsið og skemmtið ykkur fyrir vorið!

Leikstjóri er Orri Huginn Ágústsson, tónlistarstjóri Ingvar Alfreðsson og danshöfundur Viktoría Sigurðardóttir Stefaníudóttir. Stjórnandi deildarinnar er Þór Breiðfjörð og þar kenna auk ofangreindra Jana María Guðmundsdóttir og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir.

Söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Demetz er sú elsta fyrir fullorðna (16 ára og eldri) á landinu og hefur vakið mikla athygli með sýningum undanfarinn rúman áratug. Nemendur hafa farið áfram inn í marga virtustu háskóla í leiklist og söngleikjum erlendis og hérlendis. Í leiklistardeild LHÍ eru nú tveir nemendur skráðir í nám frá skólanum og myndarlegur hópur sömuleiðis í söngvaradeild, sviðshöfundadeild og skapandi miðlun. Skólinn hefur ötullega brúað bil í menntun fyrir þá nemendur sem leggja aðaláherslu á góða söngkennslu en með sterkri alhliða sviðsþjálfun.

Söngskóli Sigurðar Demetz byggir á traustri hefð Scala-söngvarans ástkæra “Sigga Demm” frá suður-Týról sem kom og var vítamínsprauta í sönglíf og söngkennslu Íslendinga á miðri síðustu öld þegar hann varð ástfanginn af íslenskri konu og náttúru landsins. Óperusöngvarar Íslendinga koma margir þaðan.