Borgarleikhúsið

Inntökuprufum lokið

8 sep. 2022

Inntökuprufur í Leiklistarskóla Borgarleikhússins fóru fram dagana 25.-28. ágúst. Við þökkum kærlega fyrir áhugann og hugrekkið sem umsækjendur sýndu með því að mæta í prufuna.

Alls mættu um 230 börn í prufurnar í ár og valið var því alls ekki auðvelt. Fjölmargir áhugasamir og efnilegir umsækjendur fengu ekki pláss að þessu sinni. Við bjóðum nýju nemendurna innilega velkomna í húsið og hlökkum til framhaldsins. Hér fyrir neðan og ofan má sjá myndir af hópunum sem hlutu inngöngu í skólann.

Kennsla á haustönn í Leiklistarskóla Borgarleikhússins hófst 5. september. Skólinn hefur vaxið með hverju árinu og í vetur stunda alls 103 nemendur nám á þremur stigum.

Framundan er spennandi vetur í Leiklistarskólanum. Á haustönn munu nemendur á lokaári setja upp tvö verk í Krakkar skrifa sem voru valin á Sögum - verðlaunahátíð barnanna á Litla sviðinu. Það eru leikritin Dularfulla húsið og Leyndardómur jarðaberjanna og leikstjórar eru Eva Halldóra Guðmundsdóttir og Ylfa Ösp Áskelsdóttir. Leikritin verða tekin upp í samvinnu við Krakkarúv. Í vor munu svo allir nemendur Leiklistarskólans taka þátt í glæsilegri uppskerusýningu auk þess sem að 3.stig sýnir frumsamin útskriftarleikrit. Skólinn mun áfram eiga í fjölbreyttu samstarfi við ýmsar stofnanir og hátíðir með það að markmiði að auka aðgengi barna að leiklist.


Nánari upplýsingar um námið og næstu inntökuprufur má sjá hér