Borgarleikhúsið

Fórn

  • Sýningum lokið
  • Sýningum á Fórn er lokið. Við þökkum fyrir góðar viðtökur.
  • Kaupa kort

Fórn er glæsileg listahátíð sem kannar tengsl listsköpunar og trúar. Tekist er með nýstárlegum hætti á við ritúalið í hversdagsleika lífs og listar, en viðburðurinn skartar 5 nýjum og spennandi verkum eftir frábæra og virta listamenn úr hinum ýmsu greinum.

Fórn

Hátíðin snýr nú aftur sem opnunarviðburður ICE HOT danslistahátíðarinnar 12. desember 2018 í Borgarleikhúsinu.

Fórn var fyrst frumsýnt í Borgarleikhúsinu 16. mars 2017 og hefur síðan þá farið sigurför um Evrópu.
Fórn hefur verið sýnt í Englandi, Grikklandi, Þýskalandi, Hollandi, Belgíu og Noregi.
Fórn hefur fengið mikið lof í bæði innlendum og erlendum fjölmiðlum og hlaut verkið No Tomorrow Grímuverðlaunin 2017 sem Sýning ársins og Danshöfundar ársins.

Fórn býður uppá fjögur spennandi dansverk eftir vel þekkta íslenska og erlenda listamenn.

Dies Irae er titill stuttmyndar Gabríelu Friðriksdóttur myndlistarmanns. Myndin er svart-hvít rapsódía, þar sem hlutbundin og óhlutbundin andartök mynda listræna heild; andartök gleði, sorgar, dauða og upprisu. Undir niðri ómar Dies Irae, sálnamessusöngur klausturs munkanna af reglu Vorrar Frúar, hann er leikinn afturábak svo úr verður dynur einsog í öldu sem tunglið togar fram og aftur. Við innöndun lifnar allt við, við útöndun deyr allt um stund, fram og til baka milli lífs og dauða hrærist allt.

Shrine eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson kveiknaði út frá myndinni Dies Irae. Manneskjan hefur innréttað flókinn heim úr myndum, táknum og – ekki síst – orðum. Við notum þau til þess að ljá tilverunni merkingu. Sum orð eiga sér aðdraganda, eins og enska orðið sacrifice sem sprottið er af latneska orðinu sacrificium – en það er aftur myndað af orðinu sacer annars vegar (hversdagslegur hlutur gæddur yfirnáttúrulegu afli) og hins vegar af sögninni facere; „að gera“. Og á tungu Tarahumara-þjóðarinnar í Mexíkó – sem fer allar sínar ferðir á hlaupum – er orðið yfir dans og vinnu eitt og hið sama. Engin orð ná þó utan um þá listrænu tilbeiðslu sem fram fer í helgidómnum. Hér er það athöfnin sjálf sem skiptir máli; sköpunin, tilbúningurinn. Laborare est orare. En helgimyndirnar sem fæðast eru ekki bara niðurstaða af uppgreftri og rannsóknum á liðnum tíma. Athafnirnar einskorðast ekki heldur við tignun horfinna gyðja og guða, eða þá alvald á borð við Jave, hinn hviklynda drottinn sem fyrstur guða setti dauðlegum mönnum lög. Í þessum helgu véum er verið að fást við síbreytilegan efnisheiminn – manninn þar með – og upphafningu hvunndagslegra, jafnvel ómerkilegra hluta, í von um að mega tengja við frumstæðan heim á skilum lífs og dauða.

Ekkert á morgun (No Tomorrow) eftir Ragnar Kjartansson og Margréti Bjarnadóttur er ballett fyrir átta dansara og átta gítara. Órafmagnaður hljómur sem ferðast í risastóru rými leiksviðsins. Ballettinn er yfirlýsing um hrynjandi, hreyfingu, hljómfall og óræðar tilfinningar. Hugleiðingar um þokka, innri kraft og list dansarans. Talning og rými. Hvernig hljóð og hljóðfærasláttur ferðast. Hvernig hljómfall vekur tilfinningu. Tónlist Bryce Dessner er samin sérstaklega fyrir þessar tilraunir. Saffó var Ragnari og Margréti hugleikin við samningu verksins. Textinn í verkinu hefur samt aðeins eina hendingu frá hörpuleikaranum frá Lesbos, hann er að mestu unninn upp úr skáldsögunni Point de Lendemain eða Dagur ei meir eftir Vivant Denon. Sagan er munúðarfullt ofurljóðrænt skáldverk frá ofanverðri 18. öld. Verk um manndómsvígsluna sem fólgin er í því að verða alvöru elskhugi á þeirri þokukenndu tíð. Þetta lítur kannski út eins og einhver Calvin Klein tískusýning en þetta er rókókó, á meira skylt við Watteau.

Union of the North eftir bandaríska listamanninn Matthew Barney og þau Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson er glæný kvikmynd og innsetning. Lífseigasta hugmynd í heimi er hugmyndin um föður, móður og barn. Hún er grundvöllur mannkyns; eining sem er sterkari en öll konungdæmi og heimsveldi sögunnar. Öll trúarbrögð fjalla um slíka sameiningu og ljá henni goðsögulega vídd með því að túlka hana sem samruna himins og jarðar. Þau lýsa einnig rofinu sem varð þegar sameiginlegt barn þeirra kom í heiminn; hvernig veröldin sveif yfir hyldýpinu alla daga upp frá því. Eina mögnuðustu útgáfu slíkrar sköpunarsögu má finna í grískri goðafræði; sögnina um Úranus og Satúrnus sem voru foreldrar 12 fyrstu guða Grikkja. Í goðsagnaheimi Súmera var það aftur á móti gyðjan Nammu, hið endalausa haf, sem ól af sér himinn og jörð, fyrstu guðina og mannkyn allt. Í verkinu Union of the North stendur hún fyrir innan afgreiðsluborðið á Dunkin’ Donuts eftir lokun og útbýr gylltan kleinuhring á meðan verið er að gæsa og steggja karl og konu annars staðar í verslunarmiðstöðinni. Hér er venjulegt, vinnandi fólk í mynd; fylgjendur fornra helgisiða sem snúið er á hvolf í þessari nýstárlegu og spennandi kvikmynd, byggðri á handriti og sýn Matthew Barney, Ernu Ómarsdóttur og Valdimars Jóhannssonar.

Hátíðahöldin ná síðan hápunkti sínum á Markaðnum sem tjaldað hefur verið til í forsal Borgarleikhússins og iðar af lífi og fjöri allan tímann: þar kynna einstaklingar og félagasamtök skoðanir sínar, seldar verða veitingar og listafólk lætur til sín taka.

Fórn er viðamesta uppfærsla í sögu Íslenska dansflokksins sem leggur nú undir sig öll leiksvið Borgarleikhússins (og forsal). Hér flæða dans, myndlist, kvikmyndagerð, leiklist og tónlist saman í einn meginstraum, svo úr verður mögnuð upplifun!

Í samstarfi við Borgarleikhúsið og LÓKAL

Meðframleiðendur: Shalala, Spring Festival Utrecht; Kunstcentrum BUDA, Kortrijk; Tanzhaus Düsseldorf; Reykjavík Dance Festival (apap).

Verkefnið nýtur stuðnings Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Kulturkontakt Nord, Norræna menningarsjóðsins, Reykjavíkurborgar og Shalala.

Flytjendur : Aðalheiður Halldórsdóttir, Anaïs Barthes, Elín Signý W. Ragnarsdóttir, Erna Gunnarsdóttir, Erna Ómarsdóttir, Friðgeir Einarsson, Halla Þórðardóttir, Hannes Þór Egilsson, Heba Eir Kjeld, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Inga Maren Rúnarsdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Sigtryggur Berg Sigmarsson, Sofia Jernberg, Valdimar Jóhannsson og Una Björg Bjarnadóttir.