Fórn


Frumsýning
Mars 2017    

Borgarleikhúsið opnar kl. 18:30 fyrir sýningar og er meðal annars boðið upp á tónlist, kokteila og smárétti á Leikhúsbarnum. Panta þarf mat með dags fyrirvara. Sjá nánar hér

„Maðurinn er ekki fullbúið sköpunarverk.“

 - Edmund Burke

Maðurinn er undarleg skepna sem telur sig sjálfsagðan hluta af náttúrunni, þótt hann virðist stundum fremur eins og utanaðkomandi á þessari jörð. Eða bendir ekki ýmislegt í framgöngu mannsins til þess að hann skeri sig úr í dýraríkinu? Hann getur sjaldnast hvílt sig og sofið klæðalaus á víðavangi, en verður að vefja sig í efnisstranga. Hann hreyfir hendur og fingur á undraverðan hátt, en verður að styðjast við húsgögn og nota ýmisskonar áhöld til þess að komast af. Maðurinn getur ekki treyst eðlisávísun sinni fullkomlega, þótt hugur hans sé óheftur. Stundum hristist hann af hlátri – þeirri dásamlegu brjálsemi – rétt eins og hann glytti í leyndan heim sem alheimurinn felur í skugga sínum.

FÓRN er yfirskriftin á allsherjar sviðslistahátíð Íslenska dansflokksins sem frumsýnd verður í Borgarleikhúsinu 16. mars 2017. Á dagskránni eru splunkuný verk eftir listamennina Ernu Ómarsdóttur, Matthew Barney, Gabríelu Friðriksdóttur, Ragnar Kjartansson, Bryce Dessner, Margréti Bjarnadóttur og Valdimar Jóhannsson. Tengsl listarinnar og trúarþarfar mannsins eru rannsökuð og krufin í brúðkaupi í Kringlunni, fermingu á Stóra sviðinu, útför á Litla sviðinu og í gegnum lífleg skoðana- og tjáskipti á markaðstorgi í anddyri Borgarleikhússins.

Í verkunum er tekinn fyrir hinn sérstaki „lífsstíll“ mannsins, aðferðir sem hvíla ekki aðeins á óhlutbundnum gildum – kristilegum eða múslimskum – heldur eru sett saman úr hversdagslegu athæfi á borð við það hvernig við mötumst, syngjum og elskumst. „Lífsstíllinn“ er því sjálft eðli okkar og þess vegna getur ekkert breytt honum nema djúpstæð reynsla; ef til vill listræn upplifun sem leiðir okkur í allan sannleika um merkingar- og tilgangsleysi siðvenja mannsins og athafna hans.

 

FÓRN er einstæður viðburður, veröld þar sem vefjast saman dans, myndlist og tónlist. Hér er á ferðinni gagnrýnin og brosleg upphafning á hvunndagslegum og hátíðlegum athöfnum; leit að hinu óþekkta innra með okkur sjálfum og tilraun til þess að ná sáttum við þá staðreynd að við erum öll  undarlegir brjálæðingar!

Athugið að aðeins eru áætlaðar 5 sýningar á „Fórn“ á Íslandi þar sem Íslenski dansflokkurinn heldur í sýningarferðalag með verkin í maí n.k. Í ár verða sýningar m.a. á listahátíðinni í Vínarborg, í Southbank Centre í Lundúnum,  Tanzhauss Düsseldorf og á listahátíðinni í Singapore.